Útdráttur úr meistararitgerð Kolbrúnar Albertsdóttur, hjúkrunarfræðings.
Lífsgæði íslenskra kvenna með samfallsbrot í hrygg
Inngangur: Ætla má að um 400 konur verði fyrir samfallsbrotum í hrygg hér á landi árlega. Flest beinbrotanna má rekja til beinþynningar, en nærri sjötta hver fimmtug kona má gera ráð fyrir því að fá samfallsbrot í hrygg síðar á lífsleiðinni. Þriðjungur þessara brota eru ógreindur eða „dulinn“. Erlendar rannsóknir sýna að beinbrot af völdum beinþynningar valda umtalsverðum áhrifum á lífsgæði og dánartíðni kvenna. Markmið þessa rannsóknarverkefnis er að lýsa áhrifum samfallsbrota í hrygg á lífsgæði íslenskra kvenna í þeim tilgangi að auka skilning á afleiðingum samfallsbrota á heilsufar kvenna hér á landi.
Aðferðafræði: Rannsóknarsnið þessarar rannsóknar er megindlegt þverskurðarsnið. Gagnasöfnunin byggði á tveimur stöðluðum lífsgæðamælitækjum, annars vegar hinu íslenska „Heilsutengd lífsgæði“ (HL-prófið) og hins vegar sjúkdómasértæku spurningakveri af evrópskum uppruna; „Quality of Life Questionnaire of the International Osteoporosis Foundation“ (QUALEFFO). Auk þess var safnað á kerfisbundinn hátt niðurstöðum úr beinþéttnimælingum og stöðluðum heilsufarsupplýsingum ásamt því að röntgenmyndir af hrygg voru endurlesnar m.t.t. samfallsbrota. Úrtak þessarar rannsóknar var 350 konur á aldrinum 50-80 ára sem höfðu komið til beinþéttnimælingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.
Niðurstöður: 289 konur svöruðu þátttökukalli (83%), meðalaldur þeirra var 64 ± 8 ár. Sextíu og ein kona greindist með samfallsbrot í hrygg (21%) við endurlestur á röntgenmyndum, en eingöngu 28 þeirra höfðu vitneskju um tilvist brotsins. Þannig voru dulin samfallsbrot 33 eða 54% af öllum greindu samfallsbrotunum. Þrjátíu og sjö konur höfðu tvö eða fleiri samfallsbrot í hrygg (61%). Konur með samfallsbrot í hrygg voru bornar saman annars vegar við hóp kvenna án brotasögu, en með ýmsa langvinna sjúkdóma sem samræmdust sjúkdómasögu brotnu kvennanna og hinsvegar við óbrotnar hraustar jafnöldrur. Meginniðurstöðurnar sýndu að konurnar með sögu um samfallsbrot í hrygg voru með marktækt lægri líkamshæð (p < 0,05) og þær höfðu einnig marktækt lægri beinþéttni en óbrotnu konurnar (p < 0,001). HL-prófið sýndi verri lífsgæði á kvörðunum sem mældu almennt heilsufar (p < 0,01), líkamlega heilsu og líðan (p < 0,05). QUALEFFO prófið sýndi hinsvegar lífsgæðaskerðingu sem byggðist fyrst og fremst á verkjaupplifun (p < 0,01) og líkamlegri getu (heimilisstörf og hreyfing) (p < 0,05). Konur með ógreind samfallsbrot í hrygg, þ.e. dulin samfallsbrot, höfðu sambærilega lífsgæðaskerðingu og konurnar með klínísku brotin, en reyndust þó ekki hafa eins mikla bakverki.
Ályktun: Rannsóknin staðfestir niðurstöður erlendra rannsókna um að lífsgæði kvenna með samfallsbrot í hrygg séu skert. Ennfremur staðfesti rannsóknin að hlutfall ógreindra samfallsbrota er hátt hér á landi og að konur með dulin samfallsbrot hafa einnig skert lífsgæði. Síðarnefndi hópurinn hefur fengið litla athygli innan heilbrigðisgeirans. Hluti af viðfangsefnum hjúkrunar er að annast aldraða einstaklinga með langvinna sjúkdóma sem eru í aukinni hættu á samfallsbrotum af völdum beinþynningar. Mikilvægt er því að þekkja áhættuþætti beinþynningar og einkenni samfallsbrota í hrygg. Það er forsenda þess að hjúkrunarfræðingar sinni forvörnum og almennri heilbrigðisfræðslu m.t.t. beinþynningar og samfallsbrota, auk þess að uppfylla faglega umönnun þessa sjúklingahóps.
Lykilorð: Beinþynning, heilsutengd lífsgæði, HL-prófið, konur, QUALEFFO, samfallsbrot í hrygg.