Fram kemur í skýrslu alþjóða beinverndarsamtakanna, sem kom út í október 2007 í tilefni af alþjóðlegum beinverndardegi, að lífshættir hafa áhrif á beinheilsu okkar. Reykingar, neysla áfengis, hreyfingarleysi, að vera undir kjörþyngd og gæta ekki að mataræði sínu ýtir undir áhættuna á að fá beinþynningu síðar á ævinni. Í skýrslunni er bent á mikilvægi þess að huga að beinheilsunni á öllum aldursskeiðum. Helstu atriði skýrslunnar koma einnig fram í bæklingi sem Beinvernd gaf út af sama tilefni VERTU Á VARÐBERGI
Hægt er að panta bæklinginn hjá Beinvernd á netfangið [email protected] eða í síma 897-3119.
Nokkur atriði til að hafa í huga:
Í æsku er hreyfing og rétt mataræði mikilvægur þáttur í þroska beinanna og til að ná hámarks beinþéttni sem getur dregið úr áhættunni á beinbrotum síðar á ævinni. Helstu næringarefnin fyrir beinin eru D-vítamín og kalk. Besta líkamsþjálfunin fyrir beinin er þegar við hreyfum okkur og þurfum að bera upp eigin líkamsþyngd t.d. göngur, hlaup, hopp, leikfimi og hinar ýmsu íþróttagreinar.
Mikilvægt er að þekka okkar persónulegu áhættuþætti, breytanlega og óbreytanlega. Fjölskyldusaga um beinbrot af völdum beinþynningar vegur þungt.
Kannaðu áhættu þína með því að taka áhættupróf um beinþynningu
Konur sem komnar eru í tíðahvörf ættu að vita að þær eru í hvað mestri áhættu á að fá beinþynningu. Beinvernd hvetur þær konur að kanna áhættuþætti sína og ræða um þá við lækni eða einhvern heilbrigðisstarfsmann.
Karlar ættu að vita að þeir eru ekki undaskildir því þeir geta einnig fengið beinþynningu og ættu því einnig að þekkja sína áhættuþætti og gera viðeigandi ráðstafanir.
Fólk sem hefur brotnað af völdum beinþynningar er hættara við brotum en jafnaldrar þeirra sem ekki hefur brotnað og því mikilvægt að huga að byltuvörnum s.s. hvort hætta sé í nánasta umhverfi, innan dyra sem utan, og líkamsþjálfun með áherslu á jafnvægisæfingar.