Beinþynning er ein af megin orsökum líkamlegrar hömlunar hjá eldri konum sem valdið getur skertri hreyfigetu og skertu sjálfstæði.
Margar miðaldra konur tapa allt að 20 – 30% af hámarks beinþéttni sinni á meðan tíðahvörf standa yfir, sérstaklega ef þær hreyfa sig lítið og gæta þess ekki að fá nægjanlegt kalk og D-vítamín. Þetta getur aukið líkur þeirra á að brotna af völdum beinþynningar.
Við tíðahvörf hjá konum minnkar styrkur kvenhórmóna, en kvenhórmón eru nauðsynleg fyrir nýmyndun beinvefs, og beintapið verður hraðara en nýmyndunin og það getur síðan leitt til beinþynningar.
Líkamsþjálfun getur hjálpað í baráttunni við beintapið. Líkamsþjálfun stuðlar að aukinni hæfni líkamans til að nýta vítamín og steinefni. Líkamsþjálfun eykur blóðflæði til beinanna og þar með flutning næringarefna til þeirra. Auk þess örva líkamsæfingarnar beinin til nýmyndunar á beinvef og þannig styrkjast þau. Líkamsæfingar auka álag á líkamann og beinin og vöðvarnir bregðast við með því að styrkjast og stækka. Hins vegar rýrna bæði vöðvar og bein og veikjast þar með við hreyfingarleysi og kyrrsetu.
Mikilvægt er að hafa í huga að göngur, hjólreiðar og sund er ekki nóg til að styrkja beinin því álagið er ekki nógu mikið. Einungis næst nægjanlegt álag með því að gera æfingar í lyftingatækjum og með því að nota lóð, það sem kallað er viðnámsþjálfun. Einnig er gott að gera æfingar sem fela í sér fjölbreyttar hreyfingar, snúninga og stapp.
Líkamsþjálfunarprógram sem felur í sér 8 – 10 mismunandi þungaberandi æfingar og viðnámsþjálfun (tæki eða lóð) þar sem gerðar eru 8 – 12 endurtekningar í hverju setti ( 1 sett = 1 æfingahringur þar sem hver æfing er gerð 8 – 12 sinnum) og gerð eru 2-3 sett og að lágmarki 2-3 sinnum í viku er það sem ráðlagt er til að styrkja beinin og auka beinþéttni. Ekki er síður mikilvægt að framkvæma allar æfingarnar rétt og hafa hæfilegt álag. Mikilvægt er að æfa undir leiðsögn fagaðila.
Líkamsþjálfun sem viðheldur sterkum vöðvum og bætir jafnvægi bætir einnig samhæfingu hreyfinga og er það mikilvægur þáttur sem dregur úr líkum á byltum og beinbrotum. Áhrif líkamsþjálfunar fer þverrandi þegar henni er hætt, því er mikilvægt að hreyfa sig, alltaf!