Að undanförnu hefur skapast nokkur umræða um steinefni sem kallast magnesíum og eru sumir á því að þeir séu margir sem líða á því skort. Þannig hefur verið ýjað að því að tengsl séu á milli magesíumskorts og beinþynningu og þannig er t.a.m. fullyrt í grein eftir Guðrúnu Bergmann að “…flestar konur, bæði ungar og gamlar, líða af magnesíumskorti” og þá vegna þess að hefðbundið vestrænt “mataræði er steinefnasnautt vegna nútímalegra búskaparhátta og vinnslu matvælanna, en það eykur mjög á almennan skort á magnesíum.” (1)
En hvað segir næringarfræðin um fullyrðingar sem þessar?
Í fyrsta lagi er magnesíumskortur vegna skorts á efninu í fæðu sjaldgæfur enda finnst það mjög víða, gagnstætt því sem sumir halda fram og þá sérstaklega þeir sem hvetja til neyslu fæðuefna í formi fæðubótar. Skortur getur þó komið fram og er þá oftast tengdur sjúkdómum eins og nýrnasjúkdómum, alkóhólisma, alvarlegum próteinskorti eða langvarandi uppköstum eða niðurgangi. Hins vegar ber að hafa í huga að þrátt fyrir að ekki sé til þess vitað að eitrunaráhrif vegna neyslu magnesíum sé ekki þekkt, svo framarlega sem við fáum það úr fæðu, kannast menn vel við heiftarlegan niðurgang samfara neyslu magnesíum í fæðubótarformi eða í formi hægðalosandi lyfja sem innihalda magnesíum. Einnig er vert að geta þess að fólk með nýrnasjúkdóma er gjarnan viðkvæmt fyrir stórum skömmtum og eitrunarástand getur skapast sem lýsir sér meðal annars með blóðþrýstingsfalli, magnleysi, hjartsláttartruflunum og jafnvel dauða.(2)
Að lokum má geta þess að það er rétt eins og fram kemur í grein Guðrúnar og hefur lengi verið vitað að þá eru tengsl á milli mikillar neyslu gosdrykkja og lélegrar beinheilsu barna og unglinga en ástæðan tengist fyrst og fremst því að þau börn/unglingar sem eru í hvað mestri neyslu á gosdrykkjum neyta minna af afurðum sem eru auðugar af beinmyndandi efnum eins og kalki og í því sambandi má nefna að það hefur verið marg sýnt fram á að bein barna sem neyta ekki kalkríkrar fæðu eins og mjólkur eru almennt veikari en þeirra sem neyta mjólkur og mjólkurafurða vel og reglubundið og sama er upp á teningnum hjá fullorðnu fólki sem neytti ekki nægilegs kalks á vaxtarárum sínum.(3)
Að lokum: Neysla magnesíums í fæðubótarformi er ekki réttlætanleg nema samkvæmt læknisráði og ef blóðprufur leiða í ljós að magn þess sé of lágt og þá í fyrsta lagi vegna þess að eitrunaráhrif of mikillar neyslu eru þekkt og í öðru lagi vegna þeirrar staðreyndar að það telst ekki algengt að fólk neyti of lítið af efninu og þá einfaldlega vegna þess að það er víða að finna í fæðu og sem dæmi má nefna að í 100 grömmum af brauði eru um 65mg af magnesíum; í 2,5 dl af mjólk 30mg og í 100 grömmum af kartöflum 22millígrömm en ráðlagður dagskammtur (RDS) af magnesíum er um 300mg á dag.
1. Guðrún Bergmann. “Magnesíum, kalk og D-vítamín fyrir beinin“. Mbl. Smartland Mörtu. Mbl. 15.ágúst.
- McGuire, K.J. og samstarfsmenn. 2000. “Fatal hypermagnesemia in a child treated with megavitamin/megamineral therapy.” Pediatrics 105:e18.
3.Rockell, J.E. og samstarfsmenn. 2005. “Two-year changes in bone and body composition in young children with a history of prolonged milk avoidance.” Osteoporosis International 16:1016-1023.
Goulding, A. og samstarfsmenn. 2004. “Children who avoid drinking cow´s milk are at increased risk for prepubertal bone fractures.” Journal of the American Dietetic Association 104:250-253.
Black, E.R. og samstarfsmenn. 2002. “Children who avoid drinking cow milk have low dietary calcium intakes and poor bone health.” American Journal of Clinical Nutrition 76:675-680.
Kalkwarf, J.H. 2003. “Milk intake during childhood and adolescence, adult bone density, and osteoporotic fractures in US women.” American Journal of Clinical Nutrition 77:257-265.
Matlik, L. og samstarfsmenn. 2007. “Perceived milk intolerance is related to bone mineral content in 10- to 13-year-old female adolescents. Pediatrics 120:e669-e677.Ólafur Gunnar Sæmundsson, næringarfræðingur