Ágrip
Inngangur: Mjaðmarbrot eru algeng meðal aldraðra, oft með alvarlegum afleiðingum og hárri dánartíðni. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna meðferð og afdrif sjúklinga sem hlutu mjaðmarbrot og voru meðhöndlaðir á Landspítala.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum ≥60 ára sem gengust undir skurðaðgerð á Landspítala árið 2011 vegna mjaðmarbrots.
Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn samanstóð af 255 sjúklingum (meðalaldur 82 ± 8 ár, konur 65%). Bið eftir aðgerð frá komu á spítalann var að meðaltali 22 ± 14 klukkustundir. Meðallegutími sjúklinga á spítalanum sem voru á hjúkrunarheimili fyrir brot var 4 ± 2 dagar en meðallegutími þeirra sem bjuggu á eigin heimili 14 ± 10 dagar (p<0,001). Fyrir mjaðmarbrotið bjuggu 68% sjúklinganna á eigin heimili en 54% við lok eftirfylgdar (p<0,001). Dánarhlutfall ári eftir brot var 27% sem er áttfalt hærra en meðaltal einstaklinga yfir 60 ára á Íslandi. Aðhvarfsgreining sýndi að aldur, tími frá áverka að komu á bráðamóttöku, ASA-flokkun og mjaðmarbrot hjá vistmanni á hjúkrunarheimili tengdust marktækt áhættu á andláti einu ári eftir aðgerð.
Ályktun: Samsetning hópsins sem mjaðmarbrotnar hér á landi er áþekk því sem gerist erlendis. Meðalbiðtími eftir aðgerð var tæpur sólarhringur, sem er innan marka erlendra gæðastaðla, en þriðjungur sjúklinga beið lengur. Umönnunarúrræði utan sjúkrahúss virtust helst ráða hversu löng sjúkrahúsdvölin varð. Marktækt færri gátu búið á eigin heimili eftir brot en fyrir. Dánarhlutfall mjaðmarbrotinna var margfalt hærra en í sama aldursþýði á Íslandi og í efri mörkum miðað við erlendar rannsóknir. Mjaðmarbrot hafa því alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinginn og eru krefjandi fyrir samfélagið.
Höfundar greinarinnar eru: Kristófer A. Magnússon, Bjarni Gunnarsson, Gísli H. Sigurðsson, Brynjólfur Mogensen, Yngvi Ólafsson, Sigurbergur Kárason
Læknablaðið gaf góðfúslegt leyfi fyrir birtingu greinarinnar og hér má lesa greinina í heild sinni.