Árlega veldur beinþynning rúmlega 1200 beinbrotum hér á landi. Algengustu brotin eru framhandleggsbrot og samfallsbrot í hrygg en alvarlegust eru mjaðmabrot. Með markvissri meðferð má fækka fjölda beinbrota.
Beinbrot skerða lífsgæði fólks, oft til margra ára og kostnaður vegna þeirra fyrir samfélagið er umtalsverður eða allt að milljarður króna ár hvert. Með þetta í huga er mikilvægt að nýta áhrifamikil meðferðarúrræði en með réttri notkun beinverndandi lyfja má helminga brotaáhættuna. Í þessum pistli verður fjallað um lyfjameðferð til þess að fyrirbyggja beinbrot af völdum beinþynningar.
Beinvernd er mikilvæg – hvort sem viðkomandi hefur beinbrotnað eða ekki – “kalk við hæfi alla ævi” og nægileg inntaka D-vítamíns ásamt reglulegum líkamsæfingum. Styrktaræfingar fyrir þá sem yngri eru en jafnvægisæfingar og byltuvarnir fyrir þá eldri. Þá er nauðsynlegt að takmarka reykingar og áfengisneyslu.
Beinþéttnimælingar
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur ákveðið að sjúkdómsgreiningin beinþynning, skal gerð með því að mæla beinþéttni með sérstökum beinþéttnimælum (DXA-tæki). Þrír fullkomnir beinþéttnimælar eru til hérlendis, einn á Landspítala í Fossvogi, annar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og sá þriðji hjá Hjartavernd. Einnig eru til einfaldari beinþéttnimælar, svokölluð hljóðbylgjutæki eða hælmælar og ræður Beinvernd yfir einum slíkum mæli sem Landsamband íslenskra kúabænda færði félaginu að gjöf.
Beinþéttnimælingar með DXA-tæki eru nákvæmar og hægt er að gera afar nákvæmar mælingar á breytingum á beinþéttni, t.d. þegar verið er að meta árangur lyfjameðferðar.
Hversu algeng eru beinbrot af völdum beinþynningar?
Beinbrot af völdum beinþynningar eru algeng en ætla má að önnur hver kona um fimmtugt og fimmti hver karl geti gert ráð fyrir því að beinbrotna síðar á lífsleiðinni. Það hefur verið áætlað að hér á landi verða rúmlega 1200 beinbrot árlega af völdum beinþynningar og þar af um 250 mjaðmabrot eða eitt mjaðmabrot alla virka daga ársins.
Hvað ákvarðar lyfjameðferð?
Það eru ekki einungis niðurstöður beinþéttnimælinga, þ.e. beinþéttnigildin sem ákvarða lyfjameðferð, heldur einnig aðrir áhættuþættir. Þar má nefna byltur, langvinnir sjúkdómar, meðferð með sykursterum (prednisolone), snemmkomin tíðahvörf (fyrir 45 ára aldur), grannholda líkamsbygging, ættarsaga, t.d. hvort móðir hafi fengið beinþynningarbrot og hvort viðkomandi einstaklingur hefur sjálfur beinbrotnað. Gera má staðlað einstaklingsbundið áhættumat með hjálp BeinRáðs á heimasíðu Beinverndar: http://osteoporosis.expeda.is/OsteoAdvisor/Public
Hvenær skal grípa til lyfjameðferðar?
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að lyfjameðferð getur viðhaldið beinþéttni og jafnvel aukið beinmassann auk þess að draga verulega úr hættunni á beinbrotum. Þetta á sérstaklega við hjá konum með staðfesta beinþynningu og sögu um beinþynningarbrot. Vanda skal lyfjaval og við upphaf meðferðar skal gera ráð fyrir nýrri beinþéttnimælingu innan 2ja-3ja ára til þess að meta árangur meðferðar. Sjá hér að neðan.
Hvaða lyf eru í boði?
Allmörg lyf hafa sannað gildi sitt hvað varðar fækkun beinbrota hjá einstaklingum með beinþynningu.
Bisfosfónöt
Þessi lyf hindra niðurbrot beinsins sem leiðir til að beinið styrkist og hættan á beinbrotum minnkar. Þetta eru tiltölulega ódýr lyf sem þolast almennt vel.
Til þessa lyfjaflokks heyra allmörg lyf, þar má nefna t.d. alendronate (Alendronate® og Ostacid®), ibandronat (Bonviva®, Bondronat® og Ibandronic acid®) og risendronat (Optinate septimum®). Þau eru öll gefin í töfluformi ýmist einu sinni á viku eða eina töflu á mánuði. Einnig eru til lyf sem gefin eru sem innrennsli í æð á 3ja mánaða fresti (Bonviva® og Iasibon®). Þá eru lyf í þessum lyfjaflokki sem gefin eru með innrennsli í æð einu sinni á ári, þ.e. Aclasta®, Zoledronic® eða Pamidronat®.
Mikilvægt er að taka þessi lyf inn samkvæmt ráðleggingum því fæða hefur áhrif á frásog þeirra í meltingarvegi. Komin er 20 ára reynsla á bisfosfónöt lyfin og hafa þau margsannað gildi sitt í fjölmörgum rannsóknum.
Hormónauppbótarmeðferð
Kvenhormónar hægja á beinniðurbroti þannig að beinþéttni eykst. Rannsóknir hafa einnig sýnt að konur sem hafa notað hormónauppbótarmeðferð hafa lægri brotatíðni en þær sem hafa ekki notað hormónauppbótarmeðferð. Langtíma hormónameðferð hefur hinsvegar fjölmargar aukaverkanir sem veldur því að ekki er mælt með þessari meðferð til langframa eða til meðferðar við alvarlegri beinþynningu.
Livial® eða tibolonum hefur svipuð áhrif og hormónauppbótarmeðferð og er því fyrst og fremst notuð í forvarnarskyni og í vægari tilvikum en ekki hjá konum með staðfesta beinþynningu og sögu um beinbrot.
Kalkhormón – paratýrin
Fyrir rúmum áratug kom lyfið Forsteo® á markað hér á landi. Þetta er fyrsta lyfið sem eykur nýmyndun beins og er beinaukinn því meiri en við notkun bisfosfónat lyfja. Þetta lyf er gefið með sprautupenna með daglegri lyfjagjöf undir húð og er meðferðartíminn takmarkaður við 1 ½ ár. Forsteo® er framleitt með líftækniaðferðum og er nokkuð dýr valkostur. Forsteo® er því fyrst og fremst notað hjá þeim sem eru með alvarlega beinþynningu og hafa fengið slæmt beinbrot og hjá þeim sem hafa ekki fengið nægjanlegan árangur af annarri lyfjameðferð eða fengið óþol fyrir bisfósfónötum.
Denosumab – RANK-hemill
Denosumab (Prolia®) er einnig framleitt með líftækni og því dýrara en önnur beinverndandi lyf. Lyfið hindrar sértækt myndun og virkni beinátufruma . Þannig dregur lyfið úr niðurbroti og endurmyndun beins aðallega í frauðbeini (hrygg) sem veldur því að beinið styrkist og brotnar síður. Prolia® er gefið með sprautu undir húð á sex mánaða fresti eða tvisvar á ári.
Fá karlar sömu meðferð?
Karlar hafa sama gagn af bisfosfónötum og konur en þeim gagnast af augljósum ástæðum hvorki kvenhormón né tibolonum. Hins vegar eru bæði paratýrín (Forsteo®) og denosumab (Prolia®) eins áhrifamikil hjá körlum og konum hvað beinvernd varðar. Karlhormón (testósterón) er einnig unnt að gefa til uppbótar og getur það gagnast sumum körlum.
Aðrir meðferðarkostir
Ýmsir aðrir meðferðarkostir eru til og má þar nefna bæði raloxifen (Evista®) og strontium ranelat (Protelos®). Þessi lyf eru ekki skráð hér á landi eða hafa ekki greiðsluþátttöku.
Mikil þróun er í gerð nýrra lyfja með líftækniaðferðum þar sem virkni lyfjanna beinast að sértækum boðefnum eða viðtækjum á beinfrumum. Vænta má mikilla framfara í meðferð á beinþynningu á næstu árum.
Hversu lengi á að meðhöndla?
Almenna reglan er að þegar meðferð með einhverju ofannefndra beinverndandi lyfja er hafin sé ækilegt að meðhöndla þá sem hafa beinþynningu en hafa ekki beinbrotnað að minnsta kosti í 3-5 ár. Hinsvegar er meðferðatíminn oftast 5-7 ár og jafnvel lengur hjá þeim sem hafa fengið beinþynningarbrot. Mikilvægt er að mæla beinþéttni eftir þriggja ára meðferð til að kanna árangur meðferðarinnar.
Niðurlag
Í þessum stutta pistli hefur verið gefið yfirlit yfir valkosti lyfjameðferðar gegn beinþynningu sem er örugg og góð meðferð sem fækkar beinbrotum.
Höfundur: Dr. Björn Guðbjörnsson, fyrrverandi formaður Beinverndar
prófessor í gigtarrannsóknum Rannsóknarstofa í gigtarsjúkdómum
Landspítali og Háskóli Íslands