Sameiginlegur fundur beinverndarfélaga á Norðurlöndunum fór fram í Stokkhólmi 15. og 16. september sl. Þar voru mættir fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum nema Danmörku. Fundurinn fór fram í fallegu húsnæði sænska læknafélagsins og var dagskráin þétt og yfirgripsmikil. Norrænu félögin kynntu starfsemi sína, áherslur og viðfangsefni og að því loknu var unnið í hópum þar sem leitast var við að finna leiðir til að efla starfsemi félaganna og með hvaða hætti best væri að ná eyrum fólks. Margar athygliverðar hugmyndir komu fram. Á síðari fundardegi flutti læknirinn Florim Delijaj fróðlegt erindi um verklag, þegar meðferð er fylgt eftir hjá fólki sem brotnað hefur vegna beinþynningar. Í lok fundar var ákveðið að félögin störfuðu saman að sameiginlegu norrænu verkefni, mataruppskriftarbók með ítarlegum upplýsingum um þau næringarefni sem beinin þurfa á að halda, í hvaða magni og fæðuflokkum þau er helst að finna. Hvert félag sendir inn uppskriftir frá sínu landi. Næsti norræni fundur verður haldinn í Finnlandi árið 2018.