Kæru félagar
Ég heiti Anna Björg Jónsdóttir og þann 20. október sl. var ég kosin formaður Beinverndar. Ég er öldrunarlæknir og starfa á Landspítala Háskólasjúkrahúsi.
Ég hef alltaf haft áhuga á beinvernd. Sem öldrunarlæknir hef ég sérstakan áhuga á byltum aldraðra og þar skiptir beinvernd miklu máli. Sem manneskja hef ég áhuga á beinvernd vegna þess að amma mín var með mikla beinþynningu og ég sá hvað þessi sjúkdómur fór illa með hana. Ég þurfti því ekki að hugsa mig lengi um þegar það tækifæri kom upp í hendurnar á mér að fá að starfa með jafn góðum hópi fagmanna og áhugamanna og eru í Beinvernd.
Eins og áður sagði hef ég sérstakan áhuga á byltum. Byltur eru alvarlegur hlutur. Erlendar tölur sýna að af þeim 65 ára og eldri sem búa heima, dettur einn þriðji árlega. Talan stækkar þegar við eldumst og u.þ.b. helmingur þeirra sem eru 85 ára og eldri dettur árlega. Afleiðingarnar eru þó það sem skiptir hvað mestu máli en talið er að byltur séu samverkandi þáttur í fjórðungi til helmingi innlagna á hjúkrunarheimili og orsök meira en 5% sjúkrahúsinnlagna aldraðra [1].
Brot eru ein alvarlegasta afleiðing byltu. Sem betur fer enda ekki allar byltur með broti, heldur einungis u.þ.b. 5-10% þeirra. Hins vegar eru um 90% brota vegna byltu [2].
Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar er bylta ”atburður þar sem einstaklingur fellur óviljandi niður á gólf, jörð eða annan lágan flöt” [3]. Grundvallaratriði er að átta sig á að ekki er nægjanlegt að meta einstakling sem orðið hefur fyrir byltu eingöngu með tilliti til áverka. Lykilatriði er að leita að undirliggjandi ástæðum hjá hverjum og einum og oft eru þær fleiri en ein. Til hagræðingar er þeim oft skipt upp í innri og ytri þætti. Með innri þáttum er átt við hluti eins og aldurstengdar breytingar (á sjón og vöðvum og beinum), sjúkdóma og lyf. Ytri þættir geta verið umhverfið (lýsing, hönnun), fótabúnaður, hjálpartæki og aðstæður almennt.
Rannsóknir hafa sýnt að margir af áhættuþáttunum fyrir byltur eru þeir sömu og fyrir brot. Dæmi um þetta eru aldur, kvenkyn og lítil líkamleg virkni [2].
Þegar verið er að meta hættuna á broti við byltu, þá skipta líka aðrir þættir eins og beinstyrkur og þeir kraftar sem verka á bein máli. Þess vegna er það hluti af byltumati að skoða áhættuþætti beinþynningar og hefja meðferð ef þörf er á.
Á þennan hátt skarast þessir tveir hlutir byltumat og beinvernd.
Með tilkomu nýrrar þjónustu á Landspítala Háskólasjúkrahúsi þar sem einstaklingar sem leita þangað með brot verða skimaðir fyrir áhættuþáttum beinþynningar og byltna, mun þjónustan við þessa einstaklinga batna til muna. Þegar lengra er litið er líklegt að með þessari breytingu muni meðferð á beinþynningu batna og brotum vegna þessa sjúkdóms fækka. Við munum aldrei alveg geta komið í veg fyrir byltur en við getum gert okkar besta til að lágmarka afleiðingarnar.
Ég er þakklát fyrir tækifærið sem ég hef fengið til að taka þátt í þessari vinnu á vegum Beinverndar. Það er kraftur og jákvæðni í loftinu. Þess vegna göngum við bjartsýn inn í framtíðina.
Heimildir:
- Tinetti, ME. 2003, NEJM
- Peeters G et al, 2009; Best practice & Research Clinial Rheumatology
- http://www.who.int/ageing/publications/Falls_prevention7March.pdf