Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO í samvinnu við alþjóðlegu beinverndarsamtökin IOF og vísindamenn við Sheffield-háskólann í Bretlandi hafa opnað sérstaka vefsíðu FRAX® með áhættureikni fyrir 10 ára brotaáhættu. FRAX byggir á staðtölum frá níu löndum í Evrópu, Asíu og í Bandaríkjunum. Þetta er einfalt reiknilíkan sem samþættir klínískar upplýsingar og beinþéttnigildi og spáirfyrir um líkur þess að einstaklingur beinbrotni af völdum beinþynningar á næstu 10 árum.
Meginmarkmið lækna sem meðhöndla sjúklinga með beinþynningu er að draga úr líkum á beinbrotum af hennar völdum með sem árangursríkustum hætti. Ákvarðanir um meðferð verða að byggja á góðu klínísku áhættumati og viðurkenndri aðferð við það að skilgreina eða finna þá einstaklinga sem eru í mestri áhættu.
Miklar væntingar eru til þessa nýja áhættumats, en það er talið mikilvægt skref til að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki um allan heim að greina þá sem eru í mestri hættu á að brotna og veita þeim sem besta meðferð. Greiningin verður mun einfaldari en áður hefur þekkst auk þess sem áhættumatið tryggir betur árangur meðferðar og getur þannig fækkað beinbrotum af völdum beinþynningar og dregið úr sálfélagslegum og efnahagslegum kostnaði sem hlýst vegna afleiðinga sjúkdómsins.
Íslenskir vísindamenn undir forustu prófessors Gunnars Sigurðssonar eru að vinna sambærilegt reiknilíkan sem byggir á íslenskum staðtölum.