Beinvernd hefur gefið út upplýsingablöðung fyrir sjúklinga um beinþynningu af völdum sykurstera. Það er löngu tímabært að gefa út upplýsingarit sem þetta, því um 2000 Íslendingar eru á langtíma sykursterameðferð á hverjum tíma.
Sykursterar valda oft alvarlegum aukaverkunum, sem unnt hefði verið að koma í veg fyrir, ef alþjóðlegum tilmælum um eftirlit og forvarnir hefði verið fylgt. Bæklingurinn kemur frá Alþjóða beinverndarsamtökunum: International Osteoporosis Foundation. Kolbrún Albertdóttir, MSc, hjúkrunarfræðingur, þýddi og staðfærði textann og Portfarma styrkir Beinvernd með óskilyrtum styrk til útgáfunnar.
Bæklingnum verður dreift af sérfræðilæknum og læknum heilsugæslustöðvanna auk þess sem hann verður fáanlegur í apótekum. Hægt er að nálgast alla fræðslubæklinga, sem félagið hefur gefið út á vefsíðunni www.beinvernd.net og þar má finna frekari upplýsingar. Til að nálgast nýja upplýsingaritið um beinþynningu af völdum sykurstera smellið hér.
Starf Beinverndar hefur stuðlað að vitundarvakningu meðal almennings um beinþynningu, áhættuþætti, forvarnir og meðferðarmöguleika með það að markmiði að fækka beinbrotum af völdum beinþynningar.