Hér má skoða nýjasta fréttabréfið á pdf formi.
Starfsemi Beinverndar hefur verið fjölþætt að vanda í vetur. Í byrjun janúar kom út nýr fræðslubæklingur á vegum samtakanna; „Sterk bein fyrir góða daga.“ Höfundur texta og mynda er Þórunn Bára Björnsdóttir, sjúkraþjálfari. Bæklingnum hefur verið afar vel tekið og honum verið dreift víða.
Eftir áramótin var hafist handa við að endurbæta vefsetur félagsins www.beinvernd. is með það fyrir augum að gera viðmót vefsins sem þægilegast. Þar verður m.a. að finna, auk frétta og fræðsluefnis, gagnvirkt áhættupróf, hollar og kalkríkar mataruppskriftir og ýmislegt fleira.
Í vetur hafa fulltrúar Beinverndar lagt sitt af mörkum í fræðslu, bæði meðal heilbrigðisstarfsfólks og almennings. Heilsugæslustöðvar hafa verið heimsóttar, ýmsir vinnustaðir og fræðsluerindi flutt á fundum foreldrafélaga skóla og annarra félagasamtaka.
Eitt meginverkefni félagsins um þessar mundir er þó myndun tenglanets Beinverndar og heilsugæslunnar. Beinvernd fór þess á leit við hjúkrunarfræðinga heilsugæslustöðva að hver heilsugæslustöð tilnefndi ákveðna hjúkrunarfræðinga sem tengiliði við félagið og hefur netið verið að þéttast í viku hverri. Stefnt er að því að allar heilsugæslustöðvar verði með tengilið fyrir haustið.
Þema beinverndardagsins árið 2006 er næring og mataræði og af því tilefni er Beinvernd í samstarfi við „íslenska kokkalandsliðið.“ Fulltrúi Beinverndar var m.a. dómari í súpukeppni á sýningunni Matur 2006. Einnig er verið að vinna að samstarfi alþjóða beinverndarsamtakanna IOF og alþjóðasamtaka matreiðslumanna WASC fyrir beinverndardaginn.