Sólin hækkar nú á lofti og færir okkur birtu, il og D-vítamín í kroppinn. Það er gott fyrir beinin. Við verðum þó að muna að sólin dugar okkur ekki sem D-vítamíngjafi hér á norðurhveli jarðar. Það hafa rannsóknir staðfest. Við verðum að gæta þess að fá líka D-vítamín úr fæðunni. Feitar fiskafurðir eru þar mikilvægur þáttur og ýmis matvara er t.a.m. orðin D-vítamínbætt og er eflaust von á enn frekari þróun í þá átt. Annað sem við verðum að fá úr fæðunni og er mikilvægt fyrir beinin er kalk. Það fæst auðveldlega úr mjólkurvörum en einnig t.a.m. úr dökk grænu grænmeti. Hreyfing er líka nauðsynleg fyrir sterk bein og því er upplagt að fara í sund og út að hlaupa eða hjóla, sérstaklega þá daga sem sólin skín. Notfærum okkur veðurspána og skipuleggjum sólargöngur nokkra daga fram í tímann, ein eða með fjölskyldu og vinum. Njótum þess að vera til. Lífið er til þess.
Beinverndarsamtökin voru stofnuð árið 1997 og verða því 20 ára á þessu ári. Ýmislegt verður aðhafst í tilefni afmælisins og verður það betur auglýst síðar. Ég hvet ykkur því til að fylgjast vel með á www.facebook.com/beinvernd og á heimasíðu félagsins, www.beinvernd.net.
Eyrún Ólafsdóttir, ristjóri