Hér er komið út á rafrænu formi þriðja fréttabréf Beinverndar á árinu 2016. Í fréttabréfinu er tekið saman það helsta sem farið hefur fram í starfsemi félagsins síðastliðnar vikur og mánuði. Kennir þar ýmissa grasa og hafa verkefnin undanfarið tengst þeim markmiðum félagsins að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli og að standa að fræðslu meðal almennings og heilbrigðisstétta á þeirri þekkingu sem á hverjum tíma er fyrir hendi um beinþynningu og varnir gegn henni.
Hefð er fyrir því að Beinvernd haldi upp á hinn alþjóðlega beinverndardag þann 20. október ár hvert og á því varð engin undantekning þetta árið. Að þessu sinni var yfirskrift dagsins GÆTTU BEINA ÞINNA og vísar í að það er að stórum hluta undir okkur sjálfum komið að gæta beinheilsu okkar. Það getum við t.a.m. gert með því að stunda þungaberandi hreyfingu s.s. göngu, dans og boltaíþróttir. Þar sem snjórinn og hálkan eru afar seint á ferðinni þetta árið er um að gera að nýta tímann útivið til gönguferða, þakin endurskinsmerkjum, þar sem svartasta skammdegið er á næsta leyti. Hvernig væri t.d. að hafa það fyrir venju að skella sér í kröftugan 20 mínútna göngutúr á mánudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum með vini eða félaga og bæta svo við lengri túr á laugardagsmorgni? Nýta má tímann í að ræða hin ýmsu mál eins og nýafstaðnar alþingiskosningar, og styrkja beinin í leiðinni. Annað mikilvægt er að gæta þess að fá nægilegt kalk og D-vítamín úr fæðunni. Sem dæmi þá eru mjólkurvörur og dökk grænt grænmeti ágætis kalkgjafar og D-vítamín fáum við t.a.m. úr lýsi. Hvernig væri að prófa eina nýja mjólkurvöru eða grænmetistegund í hverri viku? Svo er ágætis regla að taka lýsi alla daga sem börn eru í skóla þe. tengja saman skólatöskuna og lýsisflöskuna.
Eigið góðar stundir,
Eyrún Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur