Komið er út fréttabréf Beinverndar fyrir annan ársfjórðung 2016. Í fréttabréfinu er fjallað um það sem hæst ber í starfsemi Beinverndar á hverjum tíma og undanfarið hafa það verið beinþéttnimælingar með hælmæli víða um land. Beinþéttnimælingar með hælmæli gefa upplýsingar um beinþéttnina í hælbeininu sem aftur hefur forspárgildi fyrir beinþéttni annars staðar í líkamanum. Mælingin gefur því til kynna hvort ástæða er til frekari rannsókna og forvarnavinnu eða ekki. Forvarnir gegn beinþynningu felast helst í því að fólk stundi þungaberandi hreyfingu, fái nægilegt kalk úr fæðunni og afli sér nægs D-vítamíns. D-vítamínið verður til í húðinni fyrir áhrif sólarljóss. Það er því um að gera að nýta tækifærið þessa dagana þegar sólin er hvað hæst á lofti og skella sér út í góða veðrið og láta sólina skína á kroppinn um stund. Enn betra væri að nota útivistartímann í leiðinni til þungaberandi hreyfingar s.s. að ganga, skokka eða spila fótbolta. Fótboltaiðkun er mjög beinstyrkjandi íþrótt og hverjum þeim sem hefur horft á íslenska karlalandsliðið á EM undanfarnar vikur má ljóst vera að þeir hafa sterk bein strákarnir. Þeir eru á sífelldum hlaupum og lenda í hörðu samstuði við andstæðinga sína hvað eftir annað sem oftar en ekki endar með því að þeir falla í jörðina af miklum krafti en án þess þó að brjóta í sér beinin. Hæfilegt álag á beinin nefnilega styrkir þau í leiðinni. Megið þið eiga gleðilegt beinstyrkjandi sumar.
Eyrún Ólafsdóttir