Sumarið er frábær tími fyrir beinin. Þessa dagana er sólin hæst á lofti og aðstæður til útivistar og hreyfingar hvað bestar. D-vítamín myndast í húðinni fyrir tilstilli sólarljóss og líkurnar á að fá ráðlagðan dagskammt af D-vítamíni eru því góðar. Þungaberandi hreyfing styrkir beinin og hana er auðvelt að stunda á þessum árstíma. Í þriðja lagi er nauðsynlegt fyrir beinheilsuna að huga að kalkinntöku en kalk fæst nokkuð auðveldlega úr fæðu, t.a.m. mjólkurvörum. Að fá sér ís í sólskini, í framhaldi af góðum göngutúr eða skokki, er því alveg frábær leið til að styrkja beinin og það sem meira er, hún er auk þess bragðgóð.
Beinverndarsamtökin voru stofnuð árið 1997 og eru því 20 ára á þessu ári. Ýmislegt er búið að gera í tilefni afmælisins og ber þar hæst afmælisráðstefnuna þann 4. maí sl. en henni eru gerð frekari skil hér aftar í þessu rafræna fréttabréfi. Í fréttabréfinu er einnig fjallað um verkefni sem búið er að setja á fót á Landspítalanum, aðdragandann að stofnun Beinverndar og uppskriftirnar eru á sínum stað
Megið þið eiga gleðilegt og beinstyrkjandi sumar.
Eyrún Ólafsdóttir, ritstjóri