Íslenskir ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir D-vítamín hafa verið hækkaðar í 15 míkrógrömm (µg) fyrir einstaklinga 10 ára og til 70 ára aldurs. Fyrir 71 árs og eldri hefur RDS fyrir D-vítamín verið hækkaður í 20 µg. Fyrir ungbörn og börn 1–9 ára er RDS 10 µg.
Tafla: Ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir D-vítamín
Nýju ráðlögðu dagskammtarnir byggja á starfi norrænnar sérfræðinefndar um D-vítamín sem sett var á laggirnar vegna endurskoðunar á norrænum ráðleggingum um næringarefni. Niðurstöður norrænu nefndarinnar voru í megin atriðum í samræmi við niðurstöður sérfræðinefnda Institute of Medicine og European Food Safety Authority sem hafa birt nýjar ráðleggingar um D-vítamín á undanförnum árum.
Við ákvörðun íslensku ráðlegginganna var, rétt eins og í fyrri útgáfum, einnig tekið mið af innlendum aðstæðum og þá fyrst og fremst færri sólardögum heldur en í nágrannalöndunum. Íslenskar ráðleggingar fyrir D-vítamín hafa fram til þessa verið heldur hærri en þær samnorrænu, og svo er einnig í þessari útgáfu.
Ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni er það magn vítamíns sem tengist æskilegum vítamínhag fyrir allan þorra heilbrigðs fólks, samkvæmt mælingu á styrk D-vítamíns í blóði (miðast við 25-hydroxy D-vítamín a.m.k. 50 nmol/l). Við ákvörðun skammtanna er gert ráð fyrir lítilli útiveru í sól, en útivera hefur mikil áhrif á D-vítamínbúskapinn.
Nánari upplýsingar er að finna á vef Landlæknisembættisins