1. Ég er of ung(ur) til að hafa áhyggjur af beinþynningu.
Beinþynning er öldrunarsjúkdómur sem kemur fram eftir fimmtugt. Þú ert ekki of ung(ur) fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir. Þær eru m.a. að borða holla fæðu sem felur í sér nóg af kalki, D-vítamíni og próteinum; reglubundna hreyfingu; forðast reykingar og óhóflega áfengisdrykkju. Beinmassinn sem þú byggir upp í æsku segir að miklu leyti til um áhættu þína á að brotna af völdum beinþynningar síðar á ævinni. Þú getur lagt þitt á vogarskálarnar og frætt eldri fjölskyldumeðlimi um áhættuþætti beinþynningar.
2. Beinþynning er eðlilegur hluti öldrunar.
Nú á dögum er meira vitað um orsakir beinþynningar en fyrir nokkrum árum. Við vitum að það fá ekki allir beinþynningu þrátt fyrir háan aldur. Með því að byggja upp sterk bein með því að stunda hreyfingu og borða holla fæðu í uppvextinum og gera ráðstafanir á efri árum til að stuðla að sterkum beinum þá getum við öll dregið verulega úr áhættunni á beinbrotum af völdum beinþynningar.
3. Einungis gamlar konu fá beinþynningu.
Það eru margar ranghugmyndir um beinþynningu, t.d. að þetta sé sjúkdómur sem bara “gamlar konur” fá. Beinþynning er alþjóðlegt vandamál sem fer vaxandi í beinu hlutfalli við hækkandi lífaldur alls staðar í heiminum. Það er staðreynd að beintap hjá konum getur hafist strax um 25 ára aldur. Á heimsvísu er talið að þriðja hver kona brotni af völdum beinþynningar.
Beintapið að “þögult” og stigvaxandi. Oftast er það einkennalaust þar til við fyrsta brot. Beinþynning er einnig þekkt sem hinn “þögli faraldur” vegna þess að yfirleitt vitum við ekki að við erum komin með beinþynningu fyrr en of seint.
4. Karlar fá ekki beinþynningu.
Rannsóknir hafa sýnt að tíðni beinþynningar hjá körlum er hærri en áður var talið – u.þ.b. fimmti hver karl mun brotna af völdum beinþynningar. Þriðja hvert mjaðmarbrot og fimmta hvert samfallsbrot í hrygg er hjá körlum. Áhættan á samfallbrotum og mjaðmarbrotum hjá körlum eykst verulega við neyslu áfengis, sérstaklega til lengri tíma.
Áætluð áhætta á beinþynningarbrotum hjá körlum eldri en 50 ára er einn á móti þremur, sem er svipað og áhættan á að fá blöðruhálskrabbamein. Í Svíþjóð eru fleiri karlar rúmliggjandi vegna beinþynningar en vegna blöðruhálskrabbameins.
5. Ef þú færð beinþynningu þá getur þú ekkert gert við því.
Læknar, sérfræðingar í mismunandi greinum lækninga, geta meðhöndlað beinþynningu. Helstu sérfræðingarnir eru: heimilislæknar, sérfræðingar í innkirtlasjúkdómum, kvensjúkdómalæknar, gigtlæknar og bæklunarskurðlæknar. Meðferðarúrræðin til að draga úr áhættunni á beinbrotum eru mismunandi og geta minnkað áhættuna um 65 – 70 %.
Mismunandi lyf eru notuð til að meðhöndla beinþynningu; lyf sem hægja á beintapinu, lyf sem stuðla að aukinni beinmyndun og lyf sem hafa flókin og víðtæk áhrif á beinin. Auk lyfjagjafar er gefið kalk og D-vítamín til að tryggja sem best áhrif lyfjagjafarinnar.
Reglubundin hreyfing, svokölluð þungaberandi hreyfing þar sem líkaminn þarf að vinna gegn þyngdaraflinu og halda upp sinni eigin líkamsþyngd, stuðlar einnig að því að viðhalda beinum og byggja upp beinmassa. Sterkir vöðvar, gott jafnvægi og snerpa getur komið í veg fyrir byltur. Endurhæfing eftir beinbrot miðast að miklu leyti að því að koma í veg fyrir byltur. Auk þess er talið mikilvægt að endurhæfingin veiti andlegan stuðning og hagnýt ráð til takast á við breytta lífshætti.
6. Beinþynning er ekki alvarlegt að lífshættulegt ástand.
Beinþynning er útbreytt heilsufarsvandamál. Kostnaður heilbrigðiskerfa um allan heim er mikill vegna þessa sjúkdóms og afleiðinga hans. Þriðja hver kona eldri en 50 ára mun brotna af völdum beinþynningar og fimmti hver karl. Áhættan á að deyja eftir mjaðmarbrot (eða afleiðinga sjúkdómslegu vegna aðgerðar) er sá sami og að deyja af völdum krabbameins í blöðruhálskirtli eða brjóstakrabbameins.
Beinþynning hefur áhrif á heilsu 75 milljóna manns í Evrópu, Bandríkjunum og Japan. Þessar tölur munu tvöfaldast á næstu 50 árum. Það er einnig áætlað að um 225 milljónir manna í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan hafi lága beinþéttni – ástand sem kallað er “osteopenia”. Vegna lýðfræðilegra breytinga verður mesta aukning á tíðni beinþynningar í Asíu og Mið- og Suður-Ameríku. Talið er að þar muni tíðni mjaðmarborta aukast um 50% fram til ársins 2050.