Samkvæmt Alþjóða knattspyrnusambandinu FIFA er fótbolti, ásamt körfubolta, sú íþróttagrein sem hefur innan sinna vébanda flesta iðkendur um allan heim eða 260 millijónir í 329.000 félögum og í 290 löndum.
Evrópukeppnin í fótbolta í Frakklandi hefur ekki farið fram hjá neinum og því er ekki úr vegi að minna foreldra barna og unglinga á að þessi vinsæla íþróttagrein er ein sú besta, sem hægt er að stunda til þess að styrkja beinin. Rannsóknir hafa sýnt að bein ungs fólk sem spilar fótbolta verða sterkari og stærri en ella.
Rannsóknir á atvinnumönnum í fótbolta allt frá árinu 1998 sýna í samanburði við þá sem ekki spila fótbolta og eru á sama aldri (meðalaldur 23 ára) að steinefnamagnið í beinagrindinni var 18% hærra meðal knattspsyrnumannanna. Mismunurinn var 5.2% aukning í stærð beina og 12.3% aukning í beinþéttni. Eins og við mátti búast voru það beinin í mjaðmagrind og fótleggjum sem voru stærri og þéttari samanborið við beinin í handleggjum og búk.
En hvaða áhrif hefur fótboltinn á þroska beina hjá yngri iðkendum sem eru að vaxa úr grasi? Rannsókn sem stóð yfir í eitt ár á 12 ára leikmönnum sem æfðu tvisvar til fimm sinnum í viku auk þess að spila einn leik á sama tímabili sýndi að marktæk aukning var á beinþéttni miðað við jafnaldra sem ekki æfðu fótbolta.
Önnur rannsókn sýndi að unglingsstúlkur sem orðnar eru kynþroska (meðalaldur 16,2 ár) eru með hærri beinþéttni en jafnöldrur þeirra sem æfðu sund. Aukin beinþéttni er alvöru „bónus“ í forvörnum gegn beinbrotum á efri árum. Það eru góðar frétti að fótbolti er alltaf að verða vinsælli meðal stúlkna sem með fótboltaiðkun sinni munu síður verða í hættu á að fá beinþynningu og beinbrot eftir tíðahvörf miðað við jafnaldrana.
Fótbolti er skemmtileg íþrótt þar sem allir geta verið með og það þarf sjaldan að þvinga börn til þátttöku. Frá unga aldri er þessi íþrótt leikin af meira kappi og áhuga en margar aðrar íþróttir sem kenndar eru í íþróttatímum. Kennarar og foreldrar! Hvetjið börnin/unglingana til að leika sér í fótbolta í frítíma sínum. Á þann hátt hjálpið þið þeim að styrkja beinin sem mun þjóna þeim vel til framtíðar.
Heimild: www.iofbonehealth.org