Fréttabréf Beinverndar er að þessu sinni afmælisrit í tilefni af því að nú eru liðin 20 ár síðan samtökin voru stofnuð. Tuttugu ár er langur tími ef litið er til þess hve margt hefur breyst og hversu mikið börn hafa náð að stækka á þessum tíma!
Í fréttabréfinu er litið yfir farinn veg og sögu félagsins gerð skil í máli og myndum. Jafnframt er rætt er við nokkra einstaklinga sem hafa verið í lykilhlutverki í starfsemi félagsins í gegnum árin. Það er gaman að sjá hvernig félagið hefur vaxið og dafnað í gegnum tíðina og áherslur og aðferðir þróast í takt við samfélagið og nýjustu þekkingu. Þannig var t.d. í upphafi ein helsta leiðin til að ná til almennings í gegnum sjónvarps- eða blaðaauglýsingar og þátttöku í atburðum eða sýningum. Nú í seinni tíð er tengingin við almenning helst í gegnum fésbókarsíðu félagsins og heimasíðu.
Það var árið 1999 sem ég hóf stjórnarsetu í Beinvernd og ég hef verið svo heppin að fá að taka þátt í mörgum skemmtilegum verkefnum og kynnast frábæru fólki í gegnum starfið. Þannig tók ég t.d. þátt í vitundarvakningu um mikilvægi kalks við hæfi alla ævi á formi sjónvarps- og blaðaauglýsinga fyrir Beinvernd árið 2002 með syni mínum rúmlega eins árs. Eins og sést á meðfylgjandi myndum þá hefur honum vaxið mikið bein! Er það eflaust að hluta til beinaþrennunni að þakka en þess hefur alla tíð verið gætt á heimilinu að fjölskyldumeðlimir fái kalkríkt fæði og nauðsynlegan D-vítamín skammt auk þess sem hreyfing er hluti af daglegu lífi.
Lifið heil!
Eyrún Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur