Saga Capital Fjárfestingarbanki hefur ákveðið að styrkja Sjúkrahúsið á Akureyri til kaupa á fullkomnum beinþéttnimæli. Eldri beinþéttnimælir sjúkrahússins, sem hefur í nær áratug þjónað Norðlendingum, er nú óstarfhæfur vegna bilana. Því hefur orðið að senda fjölmarga til Reykjavíkur til rannsóknar á beinþynningu. Þörfin er brýn fyrir þjónustu heima í héraði, því árlega má áætla að 1200-1400 beinbrot megi rekja til beinþynningar á Íslandi.
Í haust hratt Sjúkrahúsið á Akureyri í samvinnu við Beinvernd af stað fjáröflunarherferð til söfnunar á nýjum beinþéttnimæli af fullkomnustu gerð en áætlaður kostnaður er um 10 milljónir króna. Í dag afhenti Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, Halldóri Jónssyni, forstjóra Sjúkrahússins, styrk upp á tvær milljónir króna til styrktar þessu málefni.
Halldór segir að þessi styrkur geri það að verkum að sjúkrahúsið geti nú pantað nýjan beinþéttnimæli. ,,Í ljósi þess að önnur hver fimmtug kona og þriðji hver fimmtugur karl geti átt von á því að verða fyrir beinbroti vegna beinþynningar er mælir sem þessi mikilvægur fyrir FSA og Norðlendinga. Ætla má að allt að 700 einstaklingar komi árlega til með að nýta sér þessa þjónustu hér á FSA.”
Dr. Björn Guðbjörnsson, dósent í gigtarrannsóknum og formaður Beinverndar, fagnar framtakinu og segir að beinþynning sé bæði dulin, hættulegur og kostnaðarsamur sjúkdómur og ef ekkert er að gert má segja að beinþynning sé faraldur út frá lýðheilsu séð. Hann nefnir sem dæmi að allt að 250 konur mjaðmabrotni vegna beinþynningar á hverju ári hér á landi og þá séu ótalin önnur brot, þar á meðal að minnsta kosti 400 samfallsbrot á hrygg, sem hafa umtalsverð áhrif á lífsgæði kvenna. ,,Með tímanlegri greiningu á beinþynningu má hins vegar helminga brotaáhættuna og beinþéttnimælar, eins og sá sem nú er fyrirhugað að setja upp á FSA, skipta þar sköpum,” segir Björn.