Samstarf við erlend beinverndarsamtök og félög hefur verið með mesta móti á þessu ári. Í lok mars var haldinn ársfundur alþjóða beinverndarsamtakanna, International Osteoporosis Foundation IOF í borginni Mílanó á Ítalíu og í beinu framhaldi af honum var alþjóðleg ráðstefna um beinþynningu og skylda stoðkerfissjúkdóma WCO-IOF-ECCO-2015. Á þessari ráðstefnu komu saman helstu sérfræðingar á þessu sviði og kynntu nýjustu rannsóknir sínar. Beinvernd sendi tvo fulltrúa á ársfundinn og á ráðstefnuna, prófessor Björn Guðbjörnsson fv. formann félagsins og Kolbrúnu Albertsdóttur, hjúkrunarfræðing. Auk þess tók Kolbrún þátt í námskeiði á vegum IOF sem haldið var samahliða ráðstefnunni um innleiðingu á þverfaglegu módeli eða aðferð til að koma í veg fyrir endurtekin beinbrot. Sérfræðingar innan alþjóða beinverndarsamtakanna IOF telja að þessi aðferð sé afar árangursrík og hagkvæm og bæti til muna eftirfylgd með sjúklingum sem hafa brotnað og dragi úr sívaxandi kostnaði heilbrigðiskerfisins um allan heim vegna beinþynningar og beinbrota. Beinvernd hefur mikinn hug á að þessi aðferð verði innleidd hér á landi.
Á ráðstefnunni gafst Beinvernd kostur á að vera með sérstakan bás þar sem félagið kynnti starfsemi sína og það helsta sem er að gerast hér á landi á þess vegum, m.a. samstarf Beinverndar við afurðastöðvar í mjólkuriðnaði sem vakti verðskuldaða athygli. Fulltrúi Beinverndar kynnti að auki starfsemi félagsins á ársfundinum og samstarfið við afurðastöðvarnar, sem staðið hefur óslitið í 15 ár og gert félaginu kleift að sinna öflugu fræðslu- og forvarnarstarfi á þessum árum. Sérstaka athygli vakti söfnunarátakið með svörtu fernunni og þótti með ólíkindum að hægt væri að safna fyrir beinþéttnimæli á jafn skömmum tíma í ekki fjölmennara samfélagi. Útlitið á fernunni og skilaboðin þóttu afbragð.
Fundur Norræna beinverndarfélaga
Árlegur fundur Norræna beinverndarfélaga var haldinn í Árósum í Danmörku í lok maí. Fundurinn var sá fjórði í röðinni og að þessu sinni voru það dönsku beinverndarsamtökin Osteoporose foreningen sem héldu hann. Mættir voru fulltrúar frá Noregi, Finnlandi, Íslandi og Danmörku, en sænsku beinverndarsamtökin sáu sér ekki fært að senda fulltrúa að þessu sinni.
Dagskrá fundarins í Árósum var afar metnaðarfull. Öll félögin fjölluðu um það helsta sem er á döfinni innan þeirra vébanda auk þess sem dönsku beinverndarsamtökin kynntu áhugaverðar rannsóknir sem gerðar eru þar í landi. Þær fjalla m.a. um áhrif K-vítamíns á beinþynningu, áhrif fæðubótarefnis sem unnið er úr rauðsmára á beinþynningu og um skipulag þjónustu við fólk sem hefur brotnað vegna beinþynningar og forvarnir til þess að koma í veg fyrir endurtekin brot. Kirsten Bønløkke, næringarfræðingur dönsku samtakanna kynnti nýja matreiðslubók sem hún gerði með einföldum og hollum mataruppskriftum, sérstaklega með tilliti til heilbrigði beina. Ulla Knappe, Regina Boye og Kirsten Bønløkke eiga þakkir skyldar fyrir höfðinglegar móttökur og fræðandi og góða dagskrá. Stefnt er að því að næsti fundur verði haldinn í Svíþjóð.
Alþjóðleg ráðstefna beinverndarfélaga innan IOF
13.-15. september var haldin alþjóðleg ráðstefna beinverndarfélaga innan IOF í Aþenu í Grikklandi. Þessi ráðstefna er haldin annað hvert ár og er mikilvægur vettvangur til að móta og þróa alþjóðlega hreyfingu í þágu fólks með beinþynningu í þeim tilgangi að efla fræðslu og þjónustu. Þetta er einstakt tækifæri fyrir aðildarfélög IOF um allan heim að læra að skipuleggja starfsemi sína, mynda tengslanet auk þess að heyra og sjá hvað aðrir eru að gera og deila góðum hugmyndum. Auk virkrar þátttöku í svokölluðum smiðjum voru fróðlegir fyrirlestrar um beinþynningu og tengd efni.
Beinvernd sendi tvo fulltrúa, Halldóru Björnsdóttur, framkvæmdastjóra og Önnu Björgu Jónsdóttur, nýkjörinn formann félagsins, og komu þær heim með nýjar og ferskar hugmyndir sem gagnlegar eru til að bæta og efla starfsemi Beinverndar.