Samstarfi slitið
Mjólkursamsalan sleit fyrir skömmu áralöngu samstarfi við Beinvernd. Það er mikið áfall fyrir svo lítið félag sem Beinvernd er, en MS og Samatök afurðastöðva í mjókuriðnaði hafa um árabil verið langstærsti og mikilvægasti styrktaraðili félagsins. Beinvernd og MS hafa átt árangursríka, farsæla samleið með sameiginlega hagsmuni og baráttumál beggja, mjólkina og bætta beinheilsu. Þessi ákvörðun Mjólkursamsölunnar setur áframhaldandi starfsemi Beinverndar í mikla óvissu, enda félagið ekki notið fjárstuðnings opinberra aðilja nema að litlu leyti. Á næstunni má því búast við miklum samdrætti í starfseminni hjá Beinvernd og endurmati á stöðu félagsins. Vonandi tekst að finna nýja samstarfsaðila, þótt þeir séu ekki í augsýn eins og stendur enda flest fyrirtæki búin að ljúka fjárhagsáætlunum sínum fyrir árið 2018.
Að leiðarlokum vill Beinvernd þakka Mjólkursamsölunni og Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði fyrir samstarfið. Fyrrverandi starfsmenn þess, Magnús Ólafsson, Baldur Jónsson og Guðni Ágústsson voru óþreytandi í stuðningi sínum við Beinvernd. Þeim er sérstaklega þakkað fyrir hann og þann skilning sem þeir höfðu á sameiginlegum hagsmunum Mjólkursamsölunnar og Beinverndar. Það er von Beinverndar, að MS farnist vel í framtíðinni með þær heilsusamlegu vörur, sem Samsalan framleiðir. Jafnframt er það einlæg ósk Beinverndar, að MS sjái sér hag í að starfa aftur með félaginu í framtíðinni að augljósum, sameiginlegum hagsmunum beggja.