Laugardaginn 29. september n.k. ætlar stafgöngunefnd ÍSÍ að standa fyrir stafgöngudegi þar sem almenningi er gefin kostur á að koma og kynna sér stafgöngu sér að kostnaðarlausu. Markmiðið með þessum degi er að kynna og vekja athygli á íþróttinni og hvetja fólk til þess að hreyfa sig um leið og það styrkir beinin. Hreyfing ásamt heilsusamlegu mataræði er ein mikilvægasta forvörn gegn beinþynningu.
Stefnt er að því að vera með stafgöngudag á sem flestum stöðum á landinu þennan laugardag og virkja til þess stafgönguleiðbeinendur ÍSÍ sem búsettir eru víðsvegar um landið.
Árið 2005 voru þátttakendur um 400 á 6 stöðum en árið 2006 þá fjölgaði stöðunum/leiðbeinendum sem tóku þátt, í 14 með um 450 þátttakendur. Vonumst við til þess að þátttakendum og þeim stöðum sem bjóða upp á stafgöngu fjölgi enn meira í ár þar sem ÍSÍ hefur staðið fyrir leiðbeinendanámskeiðum í stafgöngu á Ísafirði og Reyðarfirði í ár.