Eftirfarandi efni er unnið úr bæklingi gefnum út af áhugahópi sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu, Framkvæmdasjóði aldraðra og Slysavarnafélagi Íslands.
Fólk á öllum aldri verður fyrir því að detta. Börn detta oft, en meiða sig sjaldan. Fólk á miðjum aldri dettur sjaldan en eftir því sem það eldist dettur það oftar og hættan á meiðslum eykst. Auk beinbrota og mjúkpartaáverka fylgja hræðsla og kvíði oft í kjölfarið. Ætla má að þriðji hver maður yfir sjötugt detti árlega. Í þessum bæklingi er reynt að varpa ljósi á helstu ástæður þess að fólk dettur, hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir byltu og hvernig er best að bregðast við því.
Helstu ástæður þess að fólk dettur
Mikilvægt er að reyna að gera sér grein fyrir orsökum byltna til að hægt sé að koma í veg fyrir endurtekningu þeirra. Byltur eru háðar líkamsástandi einstaklings en einnig utanaðkomandi þáttum.
Almennt þrekleysi vegna hreyfingarleysis og/eða sjúkdóma er nægilegt eitt sér til að valda byltu og líkur á brotum aukast að sama skapi. Ýmsar afleiðingar sjúkdóma og/eða elli, (svo sem svimi, lömun, skert jafnvægisskyn, minni viðbragðsflýtir), geta gert það að verkum að fólk á erfitt með gang. Þá aukast líkur á byltu. Sjón og heyrn hafa einnig mikil áhrif á það hversu öruggt fólk er í hreyfingum.
Ýmislegt í umhverfinu getur leitt til þess að fólk dettur, bæði utan dyra og innan. Úti er hálkan varasömust. Misfellur á gangstéttum eru algengar slysagildrur. Lausar mottur, lausar leiðslur í gangvegi, bleyta á gólfum, hál baðkör, príl á stólum, ónóg lýsing o.fl. valda byltum innandyra.
Er hægt að koma í veg fyrir byltu?
Orsakir byltu geta verið margar og með hverjum þætti sem er lagfærður má draga úr hættu á byltu. Með þjálfun er hægt að bæta líkamsástand sitt og minnka þær afleiðingar sem sjúkdómar hafa á almenna færni. Rannsóknir hafa sýnt að það er aldrei of seint að hefja þjálfun og ná árangri í að styrkja líkamann.
Regluleg líkamsþjálfun er einn mikilvægasti þátturinn í að viðhalda styrk og liðleika líkamans. Rösk ganga eykur þol og styrkir fætur. Sund, dans og vatnsleikfimi er einnig góð þjálfun. Öll líkamsþjálfun er af hinu góða og æskilegt er að hver einstaklingur finni þjálfun við hæfi sem eykur ánægju og vellíðan. Þeir sem eiga við veikindi að stríða eða eru óöruggir um hvernig taka eigi á málunum ættu að leita ráðgjafar hjá fagfólki.
Oft gætir óöryggis og/eða svima við stöðubreytingar. Þegar slíkt gerist er ráðlegt að jafna sig áður en lengra er haldið.
Vert er að huga að reglubundnum matmálstímum, fjölbreyttri fæðu og nægum vökva, til að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsemi og færni. Mikilvægt er að fæðan innihaldi þau bætiefni sem líkaminn þarf. Einnig er gott að taka fjölvítamíntöflu daglega.
Við notkun margra lyfja samtímis getur hætta á byltum aukist. Mikilvægt er að lyf séu rétt tekin og í samráði við lækni.
Góður skóbúnaður eykur stöðugleika. Skór þurfa að styðja vel að fótum, hafa lága hæla, stama og grófa sóla.
Til þess að koma í veg fyrir byltur má gera ýmsar lagfæringar á umhverfinu:
Fjarlægja lausar mottur eða setja staman gúmmídúk undir þær. Bleytu á gólfi skal þurrka upp strax. Hafa ætíð nægilegt rými til athafna og fjarlægja lausa muni úr gangvegi. Setja upp handrið við stiga og tröppur. Hreinsa snjó af útitröppum. Hafa sterka lýsingu í og við hýbýli, einkum við stiga, tröppur og í forstofu. Næturljós er gagnlegt. Fjarlægja þröskulda.
Notkun hjálpartækja
Stafir, hækjur og göngugrindur skulu vera í réttri hæð og gúmmíið undir óslitið. Ísbroddar eru fáanlegir á stafi og hækjur. Mannbroddar eru til í ýmsum gerðum og eru ómissandi undir skó í hálku. Heyrnartæki þurfa að vera rétt stillt og með heilum rafhlöðum. Gleraugu eru mikilvæg hjálpartæki og rétt er að huga að sjónmælingu reglulega til að tryggja að glerin séu af réttum styrkleika.
Gott er að hafa flautu í vasanum og flauta eftir hjálp ef með þarf. Vasaljós kemur að góðum notum utandyra í rökkrinu.
Hvað á ég að gera ef ég dett?
Best er að gefa sér tíma til að átta sig á aðstæðum. Eru einhverjir áverkar, hvernig er best að komast á fætur og við hvað er hægt að styðja sig?
Síðan er best að standa upp í eftirfarandi áföngum:
Veltu þér á grúfu eða hlið.
Dragðu annað hnéð upp á við.
Ýttu þér upp á olnbogana.
Reistu þig upp á fjóra fætur og skríddu að næsta stól og settu hönd á stólsetuna.
Stígðu fram í annan fótinn og réttu úr bakinu.
Hallaðu þér fram og settu þungann á fremri fótinn og stattu upp.
Ef þú getur hins vegar ekki staðið upp er best að þú hugsir málið og haldir ró þinni. Breiddu eitthvað yfir þig ef hægt er og forðastu þannig ofkælingu.
Flautaðu eða kallaðu eftir því sem við á. Nauðsynlegt er að láta nágranna vita af flautunni svo að þeir viti hvað er á seyði ef heyrist í henni.
Æfðu þig í að standa upp frá gólfi. Það veiti þér öryggi að kunna það. Margir eru ófúsir að ræða þessi mál og leyna því jafnvel að þeir detti. Það er óráðlegt. Með því að gera sér grein fyrir orsök byltu má e.t.v. hindra aðra. Gott er að ræða við fagfólk um þessi mál því það getur gefið góð ráð um hvernig forðast má byltur.
Óttinn við byltu getur kyrrsett fólk. Hreyfingarleysi veldur almennu þrekleysi sem eykur hættu á byltu. Í ljósi þessa er nauðsynlegt að þjálfa sig. Dagleg hreyfing er til góðs. Hafið ávallt hugfast: Ganga styrkir fætur og sterkir forða falli.
Umsjón með útgáfu og höfundar texta:
Arna Harðardóttir, sjúkraþjálfari, Ella B. Bjarnason, sjúkraþjálfari, Þóra Andrésdóttir, sjúkraþjálfari, Þórunn Björnsdóttir, sjúkraþjálfari.
Öll vinna sjúkraþjálfara var unnin í sjálfboðavinnu.
Félag Íslenskra sjúkraþjálfara
Pósthólf 5023, 125 Reykjavík
Þessar upplýsingar birtust fyrst sem Hollráð á vef Landlæknisembættisins í nóvember 2000.