Prófessor Björn Guðbjörnsson er gigtarlæknir og áhugamaður um útivist en fann sér samt tíma til að vera formaður Beinverndar í 13 ár eða frá árinu 2002 til 2015.
Getur þú sagt okkur aðeins frá þér sjálfum?
Ég er fæddur í Reykjavík og uppalinn í Kópavogi en dvaldist öll sumur fram til 12 ára aldurs á Bifröst í Borgarfirði og síðan mörg sumur á Hallormstað. Þannig var að foreldrar mínir ráku Bifröst í fjölda ára en þar var heilmikill áningastaður með bensínstöð og gistingu á sumrin. Þetta var á þeim tíma sem bílferðin þaðan til Reykjavíkur tók allt að fjórum klukkustundum. Seinna tók móðir mín við Sumarhótelinu á Hallormsstað og þar var ég á sumrin eftir að ég var á Bifröst. Ég er því mikill sveitastrákur í mér og finnst ég vera landsbyggðarmaður. Þessi sveitarómantík lifði lengi í mér og t.a.m. ætlaði ég mér upphaflega að verða jarðfræðingur. Ég fór í Menntaskólann við Tjörnina þar sem meirihluti kennara voru ungir og nýútskrifaðir frá HÍ, m.a. Kristinn Sigmundsson líffræðingur og síðar óperusöngvari. Hann opnaði mér nýjan heim líffræðinnar og varð það úr að ég sótti um nám í læknisfræði. Ég kláraði læknisfræðina og fór því næst í framhaldsnám í gigtarlækningum í Svíþjóð, fyrst í Stokkhólmi og svo í Uppsölum. Ég var líka í rannsóknarnámi og lauk doktorsprófi árið 1994. Ég skrifaði ritgerð um Sjögrensheilkennið en hafði þá einnig mikinn áhuga á því hvernig sterar virka gegn bólguferlinu og við gerðum t.a.m. heilmiklar rannsóknir á því hvenær dagsins væri heppilegast að gefa sjúklingum með iktsýki stera. Ein af afleiðingum steranotkunar er beinþynning og þannig skapaðist áhuginn á beinþynningu sem nokkurs konar hliðarafurð. Kringum árið 1990 þegar ég var í Uppsölum var farið að gera tilraunir með fyrstu kynslóð beinverndandi lyfja sem ég tók þátt í. Þá var m.a. athugað hvort hægt væri að verja þá sjúklinga sem voru að taka stera fyrir beinþynningu.
Við bjuggum í Svíþjóð í tæp 12 ár. Við höfðum farið út sem þriggja manna fjölskylda, hjón með einn son, en komum heim með fjögur börn. Við hefðum vel getað hugsað okkur að vera áfram í Svíþjóð þar sem okkur leið vel en okkur fannst við vera að taka það frá börnunum okkar að verða Íslendingar. Við ákváðum því að fara heim og við fórum til Akureyrar þar sem ég var forstöðumaður lyflækningasviðs Sjúkrahússins á Akureyri. Á tímabili var ég í hálfu starfi sem dósent við læknadeildina í Háskóla Íslands meðfram starfinu á Akureyri þannig að ég ferðaðist mikið á milli en það gekk ekki upp til lengdar og endirinn varð sá að við fluttum suður. Síðan þá hef ég starfað á Landspítalanum á Rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum og jafnframt sem prófessor við læknadeildina.
Hvernig kom það til að þú fórst að sinna beinverndarmálum og varðst formaður Beinverndar?
Ég er með skrifstofu í gamla fæðingarheimilinu á horni Þorfinnsgötu og Eiríksgötu. Ég var búinn að vera starfandi á Íslandi í einhver 4-5 ár. Þá hringdi skiptiborðið einn daginn og sagði að landlæknir væri í símanum og vildi tala við mig. Mér dauðbrá og hélt eitt andartak að ég hefði gert eitthvað af mér. En Ólafur vatt sér beint að efninu og sagði sem svo að ég yrði „andskoti góður formaður“. „Í hverju“ spurði ég. Þá lýsti hann Beinvernd fyrir mér og raunar seldi mér hugmyndina ekki síst vegna Halldóru sem hann var þá nýbúinn að ráða í hálft starf hjá félaginu. Ólafur er mjög laginn og sagði að „það gæti enginn staðist það að vinna með henni, þessari kraftmiklu konu“ sem var auðvitað hverju orði sannara. Við Halldóra skiptum vel með okkur verkum, unnum ágætlega saman og þetta er búið að vera mjög skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Hvers vegna Ólafur hringdi í mig veit ég ekki en mögulega vissi hann af áhuga mínum á sterum og áhrifum þeirra á beinin. Á þessum tíma voru að koma ný lyf við sjúkdómnum og hann hefur því væntanlega viljað hafa lyflækni sem formann félagsins. Þarna var ég líka á sama tíma formaður félags íslenskra gigtarlækna og því ekki ókunnur félagsstörfum heldur.
Í hverju fólst starf þitt sem formaður Beinverndar?
Það fólst aðallega í því að vekja athygli á beinþynningu sem heilbrigðisvandamáli. Það þurfti að breiða út þekkingu á meðal heilbrigðisstarfsmanna, fagfólksins. Í gegnum tíðina hafði ekki verið kennt mikið um beinþynningu vegna þess að meðferðarúrræði hafði skort en forsendur breyttust þegar lyfin fóru að koma fram á sjónarsviðið. Fyrstu lyfin voru skráð hér á landi rétt fyrir aldamót og áratuginn þar á eftir héldu áfram að koma ný lyf. Staðan var eiginlega sú árið 2002 að það þurfti að endurmennta alla læknastéttina um þetta nýja meðferðartækifæri. Menn eru varkárir að innleiða nýjungar í læknisfræði og það fór mikill tími í þá umræðu að styrkja lækna í að nota þessi lyf og hvernig best væri að nota þau. Mest af mínum tíma útávið fór í þessa fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks. Það var heilmikil jákvæðni í gangi og við fengum fólk með okkur, t.d. lánaði bílaumboðið Hekla okkur gjarnan bíl með fullum tanki af bensíni þegar við þurftum að fara út á land. Þá var skipulagið oftast þannig að ég fór á heilsugæsluna og talaði við fagfólkið en Halldóra hélt fund fyrir almenning á meðan, t.d. í kirkjunni eða safnaðarheimilinu á staðnum. Þannig var hvert bæjarfélagið af öðru undirlagt af beinverndarumræðu og vitundarvakningu. Við fórum mjög víða um land, ss. til Vestmannaeyja og Keflavíkur, á Ísafjörð og Selfoss svo eitthvað sé nefnt.
Hvað er einna eftirminnilegast úr starfi þínu fyrir félagið?
Það er fræðslan. Mér finnst gaman að leiðbeina og kenna og ryðja braut fyrir nýja hluti. Það er rosalega gaman að fara úr rannsóknaumhverfinu og heimsækja starfsemina, hitta fólk á stöðunum og ræða beinþynningu. Þetta er þakklátt starf. Maður upplifir að maður sé virkilega að gefa eitthvað af sér til samfélagsins því þó að maður sjái ekki beint sjúklingana sjálfur þá er maður óbeint að tryggja hag þeirra og það hefur mér þótt afskaplega gefandi. Meðferðin þ.e. lyfin þegar þau komu, var hreint og beint bylting fyrir þennan sjúklingahóp. Að geta helmingað brotaáhættu fólks í fyrsta skipti var einstakt. Það vita allir sem hafa brotnað að það að sleppa við næsta brot er ómetanlegt. Meðferðin semsagt fækkar áföllum af völdum sjúkdómsins svo um munar.
Hefur þú sjálfur lent í því að beinbrotna og hvernig gætir þú þinnar eigin beinheilsu?
Nei, ég hef ekki sjálfur brotnað. En ég á t.a.m. syni og móður sem hafa beinbrotnað og þannig séð áhrifin sem beinbrot hefur á líf fólks. Hvað varðar mína eigin beinheilsu er ég mikið úti og í fjallgöngum. Útiveran tryggir mér D-vítamín frá náttúrunnar hendi og að ganga með þyngd á bakinu styrkir beinin. Ganga á fjöll er líka gott fyrir jafnvægið. Nú svo tryggi ég mér kalk með fjölbreyttri fæðu og lýsi tökum við alltaf hér á heimilinu á veturna. Í gegnum árin hefur það verið þannig hjá okkur að þegar skólarnir byrja á haustin, þá er lýsisflaskan tekin fram.