Halldóra Björnsdóttir íþróttafræðingur hefur starfað hjá Beinvernd frá árinu 2000 eða í samtals 17 ár.
Getur þú sagt okkur aðeins frá þér sjálfri?
Ég er fædd í Reykjavík og alin þar upp. Foreldrar mínir eru Björn Kristsmundsson og Sigríður Kjartansdóttir. Skólagangan var hefðbundin, fór í Kvennaskólann (á meðan hann var grunnskóli) og þaðan lá leiðin í Verslunarskólann. Eftir stúdentspróf lagði ég leið mína til Austurríkis og náði mér í skíðakennararéttindi og vann þar sem skíðakennari þann vetur. Þá fannst mér tími til kominn að ég færi að sinna námi og ég fór vestur til Kanada, nánar tiltekið til Edmonton í Albertafylki. Þar lagði ég stund á íþróttafræði við University of Alberta með áherslu á íþróttir fatlaðra og líkamsþjálfun.
Ég starfaði sem skíðakennari í Kerlingarfjöllun í nokkur sumur og síðan við heilsusportið á Reykjalundi. Eftir að háskólanámi lauk kom ég heim og fór í Háskóla Íslands til að ná mér í kennsluréttindi. Ég kenndi við Öskjuhlíðarskólann, sem nú heitir Klettaskóli, í 10 ár áður en ég hóf störf fyrir Beinvernd. Síðastliðin 30 ár hef ég haft umsjón með morgunleikfiminni á Rás 1 hjá RÚV. Ég kenni nú íþróttir samhliða Beinverndarstarfinu á Starfsbraut Fjölbrautarskólans í Breiðholti. Hvað varðar fjölskylduhagi þá er ég
gift Birgi Þór Baldvinssyni og við eigum fjögur börn.
Hvernig kom það til að þú varst ráðin starfsmaður Beinverndar?
Eftir að Beinvernd og Afurðastöðvar í mjólkuriðnaði gerðu með sér samstarfssamning var kominn grundvöllur til að ráða starfsmann í 50% starf. Ég fékk hringingu frá einum stjórnarmanni Beinverndar og fannst þetta spennandi starf svo ég sló til eftir stutta umhugsun.
Hvernig hefur starfið þróast í gegnum árin?
Til að byrja með var vitund fólks um beinþynningu lítil sem engin, jafnvel einnig hjá heilbrigðisstarfsfólki en það hefur sem betur fer breyst.
Hvað er einna eftirminnilegast úr starfi þínu hjá félaginu?
Hinn alþjóðlegi beinverndardagur sem haldinn er 20. október ár hvert er alltaf skemmtilegur. Þá er áhersla lögð á ákveðið og afmarkað efni og oft hefur verið gefið út nýtt fræðsluefni eða fréttablað í tilefni dagsins. Það er mjög skemmtilegt að vinna við það. Svo má einnig nefna alþjóðlegar ráðstefnu beinverndarfélaga innan alþjóða beinverndarsamtakanna IOF sem haldnar eru annað hvert ár. Þar hittumst við sem störfum hjá beinverndarfélögum um allan heim og berum saman bækur okkar, lærum hvert af öðru og fræðumst um það nýjasta sem er að gerast í heimi beinanna.
Getur þú sagt okkur frá einhverju skemmtilegu atviki sem átti sér stað þegar þú varst að störfum fyrir Beinvernd?
Það er nú alltaf svo skemmtilegt þegar ég er að vinna beinverndarstörf en það var frábært þegar við óvænt unnum til verðlauna fyrir framsækið beinverndarstarf á alþjóðlegri ráðstefnu í Lissabon og endurtókum svo leikinn nokkru síðar á ráðstefnu í Bankok.
Hefur þú sjálf lent í því að beinbrotna og hvernig gætir þú þinnar eigin beinheilsu?
Nei sem betur fer hef ég nú ekki beinbrotnað þrátt fyrir byltur á skíðum og hjólreiðum. Ég reyni auðvitað að gæta heilbrigði beinanna með því að huga vel að því að fá þau næringarefni sem beinin þurfa mest á að halda, D-vítamín og kalk, og ég hreyfi mig mjög mikið. Ég reyni að fara sem flestra ferða hjólandi í öllum veðrum allan ársins hring og svo stunda ég jóga.
Að lokum og til gamans, hvaða þjóð í heiminum telur þú að sé með sterkustu beinin og hvers vegna?
Ég veit miðað við niðurstöður rannsókna að Norðurlandabúar eru með hæstu brotatíðnina og ég hugsa að sterkustu beinin séu hjá afrískum þjóðum, a.m.k. virðist sem beinbrot af völdum beinþynningar séu þar talsvert fátíðari. Líklegasta skýringin beinist að erfðaþáttum en svo getur það líka tengst meiri sól og fólk er meira utandyra og fær því D-vítamín í kroppinn og e.t.v. meiri líkamlega vinna. En það er vert að skoða þetta nánar.