D-vítamín og kalk eru mikilvægt næringarefni fyrir beinin og vinna saman. D-vítamínið hefur áhrif á frásog (upptöku) kalksins úr meltingarveginum. Samkvæmt grein sem birtist í hinu virta næringarfræðitímariti Nutrition Reviews (54. 1996 S3-S10) er komist að þeirri niðurstöðu að tíðni beinþynningar gæti orðið allt að helmingi lægri ef allir myndu temja sér ráðlagða neyslu kalks og D-vítamíns.
D-vítamín hefur þá sérstöðu að með aðstoð sólarljóssins er vítamínið framleitt í líkama okkar og nægir manni með ljóst hörund að vera úti við í björtu í 10 til 20 mínútur á dag. D-vítamín finnst ekki ríkulega í fæði og því mikilvægt að fólk, sem einhverra hluta vegna á erfitt með að fara út fyrir hússins dyr, neyti D-vítamínríkrar afurðar eins og lýsis en hálf matskeið af lýsi gefur um 20 míkrógrömm, en ráðlagður dagsskammtur er 10 míkrógrömm. Önnur fæða sem er rík af D-vítamíni er t.d. feitur fiskur eins og lax, síld og sardínur sem og lifur.