Þriðjudaginn 22. apríl sl. hélt Beinvernd morgunverðarfund undir yfirskriftinni Sterk bein, sterkar konur – hringborð kvenna um beinþynningu.
Samtökin Beinvernd hafa starfað í ellefu ár og ætíð sett markið hátt og unnið markvisst að því að fræða almenning, heilbrigðisstarfsfólk og stjórnvöld um sjúkdóminn beinþynningu, alvarleika hans, hvernig hægt er að greina hann og meðhöndla og ekki síst helstu forvarnir gegn honum. Rannsóknir hafa sýnt að sjúkdómurinn hefur mikil áhrif í lífsgæði þeirra sem af honum þjást. Afleiðingar beinþynningar, beinbrotin, og sú hömlun sem af þeim hlýst, getur hindrað þátttöku okkar í félagslífi, atvinnulífi, útvist og því sem okkur flestum þykir sjálfsagt að gera. Niðurstöður rannsóknar eins þátttakanda hringborðsins, Kolbrúnar Albertsdóttur, hjúkrunarfræðings, um afleiðingar samfallsbrota á lífsgæði íslenskra kvenna, leiddu í ljós að fjöldi samfallsbrota í hrygg eru ógreind þ.e.a.s. fólk veit ekki að það hefur brotnað og koma þær niðurstöður heim og saman við erlendar rannsóknir.
Þátttakendur hringborðsins voru þær Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri hjá Landlæknisembættinu; Helena Ólafsdóttir, knattspyrnuþjálfari kvennaliðs KR; Hildur Gunnarsdóttir, sjúkraliði; Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði; Kolbrún Albertsdóttir, hjúkrunarfræðingur og rannsakandi; Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingismaður. Fundarstjóri var Brynja Þorgeirsdóttir, fjölmiðlakona. Með hringborðsumræðunum vildi Beinvernd hvetja til umræðna á breiðum vettvangi og stuðla að almennri vitundarvakningu um beinþynningu. Það er bæði athygli- og þakkar vert að hraustar konur á besta aldri, sem ekki eru með beinþynningu, taki höndum saman og gefi sér tíma til að setja sig inn á málefnið og gerast málsvarar þess. Og ekki síður að kona, á besta aldri og með reynslu af því að brotna af völdum beinþynningar, sé tilbúin að segja frá því hvernig tilveran breyttist við það að brotna. Hildur Gunnarsdóttir sagði sögu sína en hún greindist með beinþynningu fyrir fimm árum og hafa beinbrotin breytt lífi hennar og fjölskyldunnar allrar mikið. Auk þess var rætt um mikilvægi þess að viðhalda lífsgæðum og vernda bein, hvort það eigi að D-vítamínbæta hreinar mjólkurvörur því samkvæmt nýrri rannsókn nær a.m.k. þriðjungur fullorðinna ekki æskilegum mörkum af D-vítamíni yfir vetur og hlutfallið er enn hærra hjá börnum og unglingum. D-vítamín stjórnar frásogi á kalki í görnum og fosfati úr fæðu og er mikilvægt fyrir beinheilsuna. Einnig var rætt um mikilvægi hreyfingar fyrir beinin, hvort skima ætti fyrir beinþynningu, að rannsóknir og menntun geta skipt sköpum í bættri greiningu og meðferð og að lokum voru stjórnvöld hvött til að forgangsraða beinþynningu á heilbrigðisáætlun.