Þann 20. október er alþjóðlegur beinverndardagur og á þessum degi ár hvert halda beinverndarfélög innan Alþjóðlegu beinverndarsamtakanna IOF, sem eru 155 talsins frá 75 löndum, upp á daginn í því skyni að vekja athygli almennings og stjórnvalda á þeim mikla vágesti, beinþynningu. Í ár er yfirskriftin Lífsgæði- komum í veg fyrir fyrsta brot.
Vágesturinn er í senn dulinn, því fólk veit oft ekki af honum fyrr en við fyrsta brot og einnig alvarlegur því hann skerðir lífsgæði verulega hjá þeim, sem brotna af völdum hans. Allt það sem heilbrigðu fólki finnst sjálfsagt að gera, s.s. að vera félagslega virkt, sinna fjölskyldu og vinum, ferðast, hreyfa sig o.s.frv. verður ekki lengur sjálfsagt. Það er því mikilvægt að koma í veg fyrir beinbrot af völdum beinþynningar. Rannsóknir benda til þess að eftir fyrsta brot fylgi önnur á eftir sem geta haft afar hamlandi afleiðingar fyrir þolendur þeirra. Algengustu brotin eru úlnliðsbrot, samfallsbrot í hrygg og mjaðmabrot. Talið er að um þriðja hver kona og áttundi hver karl brotni af völdum beinþynningar einhvern tíma á lífsleiðinni.
En hvernig getum við komið í veg fyrir fyrsta brot? Það fyrsta sem kemur upp í hugann eru forvarnir, þar sem kapp er lagt á að börn og unglingar nái góðri beinþéttni í uppvextinum. Hjá stúlkum eru árin 11-14 ára mikilvæg, en á þeim árum á mesti beinvöxturinn sér stað og hjá drengjum árin 13-17 ára. Á þessum árum verður að gæta vel að kalkríkri næringu og hollri hreyfingu. Einnig er mikilvægt hér á landi að börn taki lýsi eða fjölvítamíntölflur til að fá D-vítamín, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.
Aldrei er of seint að hefja forvörn með bættum lífsvenjum, og ég hvet landsmenn til þess að taka áhættupróf sem segir til um horfur á beinþynningu. Þetta áhættupróf er að finna á heimsíðu Beinverndar www.beinvernd.net Sem betur fer er hægt að greina beinþynningu með svokölluðum beinþéttnimælingum og hægt er að meðhöndla sjúkdóminn með beinþéttnilyfjum til þess að draga úr líkum á beinbrotum.
Halldóra Björnsdóttir, íþróttafræðingur og framkvæmdastjóri Beinverndar.