Anna Pálsdóttir, stjórnarmaður í Beinvernd.
Öll viljum við lifa með reisn en það tekst ekki öllum. Við munum eftir því úr æsku að vera áminnt um að bera okkur vel, vera bein, rétta úr okkur, sitja og standa bein. Margir muna líka eftir gömlum hoknum konum sem voru næstum komnar í hálfhring. Nú er vitað að alvarleg beinþynning getur verið orsök þessarar afmyndunar líkamans. Þetta er rifjað upp í tilefni af Alþjóða beinverndardeginum 20. október, 2003.
Beinmyndun – beinþynning.
Beinin, helsta kalkforðabúr líkamans, byrja að myndast á fósturstigi. Alla ævi eru beinin að endurnýjast, en beinagrindin endurnýjast öll á tveggja ára fresti. Við 20-25 ára aldur hefur hámarksbeinmassa verið náð og byggist það fyrst og fremst á erfðum hve beimassinn verður mikill. Hreyfing og næring á barnsaldri ráða þó miklu um stærð beinmassans. Góð forvörn felst í því að ná sem mestum beinmassa á unga aldri til að vera vel undirbúin því að eldast .
Með forvörnum má koma í veg fyrir óeðlilega beinrýrnun sem rýrir lífsgæði þeirra sem verða fyrir henni. Ein afleiðing beinþynningar er samfallsbrot í hrygg sem þrengir að lungum og kviðarholi, sem auk líkamslýta og skertrar hreyfigetu, getur valdið miklum óþægindum og sársauka, bæði andlegum og líkamlegum.
Við eðlilegar aðstæður helst beinmassin stöðugur hjá konum fram undir tíðahvörf, sem verða yfirleitt milli fertugs og fimmtugs, og fram undir sjötugt hjá körlum.. Á þessu árabili er rétt að láta mæla beinþéttnina og leita ráða læknis ef mæling bendir til beinrýrnunar. Í fjölskyldum þar sem beinþynning er þekkt er rétt að vera vel á verði . Það sama gildir um þá sem þurfa að taka inn lyfið prednisolon, en langtímanotkun þess getur valdið beinþynningu.
Við tíðahvörf verða miklar hormónabreytingar hjá konum, sem geta leitt til mikils beintaps. Þá er gott að hafa fyrir góðan beinmassa. Ýmis lyf er nú á markaðnum, sem byggja upp beinvefinn, svo hægt er að hjálpa mörgum, en best er þó að vera vel á verði í tíma.
Mælingar
Reglubundnar beinþéttnimælingar hófust hér á landi á Landspítalanum í Fossvogi fyrir u.þ.b. átta árum, en slíkar mælingar eru eina leiðin til að kanna náið ástand beinmassans.
Sífellt er verið að þróa nýjar mælingaraðferðir og hér eru notaðar hælmælingar til skimunar.
Beinvernd á Suðurlandi hefur fengið styrk frá Pokasjóði til hjálpa félaginu til að kaupa beinþéttnimæli.
Samtök stofnuð
Landsamtökin Beinvernd voru stofnuð í mars 1997 og í nóvember sama ár var félagið Beinvernd á Suðurlandi stofnað í Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Suðurlandsfélagið er í nánu samstarfi við móðurfélagið auk þess sem margir fræðslufundir hafa verið haldnir á þess vegum.