Þessa dagana er víða mjög mikil hálka. Hálkuslysin gera ekki boð á undan sér og ekki er gott að beinbrotna rétt fyrir jólin. Beinvernd hvetur fólk til að nota mannbrodda.
Mannbroddar eru ekki eingöngu fyrir gamalt fólk. Öll eigum við á hættu að detta í hálkunni og beinbrotna, sérstaklega þeir sem eru með beinþynningu. Eftirfarandi er úr bók Steinunnar Sigurðardóttir og tengist hálku og mannbroddum:
„ Í nóvember, desember og janúar kyngdi niður snjó. Ég fékk það embætti að fylgja lítilli frænku minni í spilatíma einu sinni í viku. Hún átti heima rétt hjá mér á Rauðarárstíg og ég klöngraðist með hana og gítarinn eftir Grettisgötu, niður á Klapparstíg. Ég hélt á gítarnum í annarri hendi og leiddi hana með hinni. Ruðningarnir voru svo háir að við vorum í mestu vandræðum og fórum varla nokkra ferð án þess að hrasa á hálkunni. Þetta endaði með því að ég fékk mér mannbrodda þótt mér fyndist eiginlega að slík hjálpartæki væru meira fyrir gamlar konur með beinþynningu (Steinunn Sigurðardóttir Ástin fiskanna 1993 bls. 40)“.