Beinþynning er ekki einungis sjúkdómur eldri kvenna. Yngra fólk getur einnig fengið beinþynningu, Hildur Gunnarsdóttir er ein þeirra. Hún tók þátt í hringborði kvenna um beinþynningu sem haldið var þann 22. apríl 2008 og sagði sögu sína.
Hildur er 42 ára gömul, gift á á 3 börn. Hún er menntaði sig sem sjúkraliði en vegna heilsu sinnar getur hún ekki lengur sinnt því starfi né vinnu almennt. Lífið breyttist hjá Hildi fyrir um fimm árum síðan þegar hún eignaðist sitt yngsta barn þá 37 ára gömul. Í ljós kom kom eftir fæðinguna að fjórir hryggjarliðið höfðu fallið saman og við nánari athugun kom í ljós að hún var með mikla beinþynningu. Hildur segir að þetta hafi haft mikil áhrif á líf hennar og allrar fjölskyldunnar. „Það er svo margt sem breytist í lífinu, svo margt sem maður þarf að læra upp á nýtt. Maðurinn minn þarf að vinna mikið því ég get ekki unnið lengur. Ég er menntaður sjúkraliði en get ekki lengur unnið við það. Ég þarf að passa mig á að detta ekki og það er verst þegar hálkan kemur og þá er þetta oft erfitt. Ég er með börn í skóla og þarf að sækja þau og hef ekki alltaf tök á því að halda mig heima“. Hildur lifir heilbrigðu lífi og hefur alltaf gert, hún reykir ekki, borðar hollan mat og hreyfir sig. Hún veit ekki hvort hún sé bara fædd svona, að þetta hvort það sé eitthvað í genunum því það er ekki vitað.
Aðspurð um framtíðina segir Hildur að hún sjái engan bata, verkirnir haldi áfram og það tekur mjög mikið á andlega. Hún segist vera á lyfjum til að auka beinþéttnina og að hún hafi aukist en ekki nóg. „Ég er búnin að brotna tvisvar á ristinni auk samfallsbrotanna sem ég fékk við fæðingu yngstu dótturinnar. Á síðustu meðgöngunni fékk ég kvef og hóstaði í sundur rifbein. Það er skrýtið að vera allt í einu orðin lítil því ég hef lækkað um 5 sm. Ég fæ oft martraðir þ.e. að ef ég væri í bíl og lenti í aftanákeyrslu þá myndi ég hrynja saman“. Það eru miklar líkur á því að Hildur myndir brotna ef hún lenti í bílslysi og hugsanlega á mörgum stöðum því beinin eru svo viðkvæm og brothætt.
Í fyrra fór Hildur í röntgenmyndatöku og læknirin sýndi henni röntgenmyndirnar og bar þær saman við myndir af heilbrigðum beinum. Munurinn á þeim var sláandi, þar sem heilbrigðu beinin voru hvít og fín en hennar bein voru gegnsæ.
Hildur telur að heilsufar hennar hafi óhjákvæmilega áhrif á börnin. Yngsta dóttirin hefur m.a. lært að mamma getur ekki tekið hana upp því henni er illt í bakinu. Stundum getur hún hvorki setið né legið og varla gengið. Dæturnar hafa spurt hvort þær fái beinþynningu og þetta er þeim oft ofarlega í huga. „En auðvitað vona ég að þær sleppi við þetta“.