Jens Jónsson er 69 ára gamall. Hann greindist með beinþynningu fyrir fimm árum síðan. Aðdragandinn var sá að hann datt á bakið í hálku og fékk samstundis stingandi verk yfir brjóstkassann. Þrátt fyrir að hann fengi bæði verkja- og deyfilyf var hann svo kvalinn að í marga klukkutíma gat hann sig ekki hreyft. Vegna sterks gruns um að einkennin stöfuðu frá hjartanu yfirsást læknum hin raunverulega ástæða, þ.e. samfallsbrot í hrygg. Það var svo þremur erfiðum mánuðum síðar að heimilislæknirinn hans sendi hann í beinþéttnimælingu. Þá loksins uppgötvaðist samfallsbrotið og þar með beinþynningin. Mælingin leiddi í ljós að hann var með 63% beinþéttni í hryggsúlunni og 65% beinþéttni í útlimum.
Jens var samstundis settur á lyf sem á að koma í veg fyrir frekara beintap og einnig hóf hann að fara í sjúkraþjálfun tvisvar í viku. Lyfið þurfti hann að taka einu sinni á dag í uppréttri stöðu, a.m.k. hálfri klst. fyrir fyrstu máltíð dagsins. Nú er hins vegar hægt að fá þetta sama lyf sem forðatöflur þannig að nú tekur hann það einu sinni í viku en með sömu aðferðum þó. Jens tekur auk þess inn kalktöflur og lýsi daglega. Hann borðar hollan mat og fer reglulega í gönguferðir með eiginkonu sinni auk þess sem hann leggur áherslu á að gera góðar teygjuæfingar. Hann hætti að reykja fyrir níu árum síðan.
Líðan Jens hefur farið hægt batnandi síðan hann brotnaði. Í fyrstu gat hann ekki skrælt kartöflur án þess að fá verki í bakið en núna getur hann hins vegar gengið í heila klukkustund. Hann segist taka sér lengri tíma en áður í allt sem hann gerir og passar ætíð að verða ekki of þreyttur. Vegna beinþynningarinnar má hann ekki lyfta þungum hlutum og eins þarf hann að gæta sín vel að detta ekki. Hann fær alltaf verki öðru hvoru en þeir eru ekki stöðugir. Hæð Jens hefur lækkað sem nemur 4,5 cm. og hann er svolítið “kýttur” í herðum. Af sömu ástæðu eru jakkar sem hann gat áður notað orðnir of þröngir yfir brjóstkassann.
Jens segir að lífsviðhorf sitt hafi breyst mikið frá því sem áður var. Hann einbeitir sér að því að lifa góðu og innihaldsríku lífi þrátt fyrir þær takmarkanir sem heilsan hefur sett honum. Hann telur sig í raun hafa verið heppinn að detta á þessum tímapunkti því það varð til þess að sjúkdómurinn uppgötvaðist og þar með var hægt að byrja að meðhöndla hann. Annars hefði beintapið haldið áfram án þess að hann hefði hugmynd um það.
Tveimur árum eftir brotið svo og nú fyrir stuttu síðan fór Jens aftur í beinþéttnimælingu. Niðurstöðurnar hafa verið jákvæðar. Ekki hefur aðeins tekist að stöðva frekara niðurbrot beinanna, heldur hefur beinþéttnin hans aukist um sem nemur 1% á ári. Það er meira en hann hafði þorað að gera sér vonir um í upphafi.
Jens vill hvetja fólk sem er á aldrinum 40-50 ára til þess að láta mæla í sér beinþéttnina því þannig má komast að því hvort þörf sé á sértækum aðgerðum. Hann telur að í sínu tilfelli hefði beinþéttnimæling í tíma getað skipt sköpum og komið í veg fyrir að hann tapaði svo miklum beinmassa sem raun varð á.
Eyrún Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur og í stjórn Beinverndar.