Dregið hefur verið í getraunaleik Beinverndar 2012. Alls tóku 800 manns þátt í leiknum og vinningshafinn reyndist vera Ásthildur Silva Eggertdóttir, en hún fékk IPAD- spjaldtölvu í verðlaun. Ásthildur fékk auk þess fræðsluefni frá Beinvernd og hvort tveggja kemur vonandi að góðu gagni í námi og leik.
Getraunaleikurinn fór fram á vef Beinverndar, www.beinvernd.net , en spurningarnar voru einnig á baksíðu fréttabréfs sem Beinvernd gaf út í tilefni af alþjóðlegum beinverndardegi þann 20. október sl. Að þessu sinni fengu nemendur sem fæddir eru 1998 og foreldrar þeirra fréttabréfið sent heim. Efni þess var þeim ætlað sérstaklega til að fræða þau um mikilvægi þess að byggja upp sterk bein og viðhalda sterkum beinum. Einnig var lögð áhersla á að koma skilaboðum um heilbrigða lifnaðarhætti áleiðis, þ.e. hreyfingu og hollt mataræði sem felur í sér nægjanlegt kalk og D-vítamín. Efni fréttabréfsins á þó erindi til allra en framsetningin í þetta sinn var sérstaklega beint til ungmenna. Í fréttabréfinu er að finna, auk fróðleiks um beinin og getraunaleikinn, viðtöl við tvo Ólympíufara og hollar mataruppskriftir. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir þegar verðlaunahafinn Ásthildur Silva Eggertsdóttir tók á móti verðlaunum sínum.