Skortur á D-vítamíni (D3) er lýðheilsuvandamál og er talið hafa heilsufarsleg áhrif á einn milljarð jarðarbúa. Orsökina má m.a. rekja til lífstíls fólks. Flestir mæta D-vítamínþörf í gegnum sólarljós (UVB) en takmarkandi áhrifavaldar eru m.a. ; breiddargráða, árstíð, tími dags, skýjahula, mengun, húðgerð, aldur og sólarvarnir. Á þeim tíma sem tekur húðina að verða bleik (10-30 mín) getur líkaminn framleitt 10 til 25.000 einingar. Það er góð þumalfingursregla, ef skuggi þinn er lengri en þú, er UVB geisli sólarinnar ekki lengur til staðar. Til samanburðar er ráðlagður dagskammtur D3 (RDS) á bilinu 400-800 einingar. Mikilvægt er að fólk sýni ábyrga sólariðkun. D-vítamín finnst helst í feitu sjávarfangi, fiskiolíu, eggjum og lifur auk D-vítamínbættra vara. Ef við fyllum matarkörfu af hollum og næringarríkum matvörum eru engar líkur á að innihaldið uppfylli þörf líkamans.
Ábyrgð þeirra er völdin hafa
Eldri kynslóðir búa að því að hafa fengið þá þekkingu og venjur sem þurfti til að skilja mikilvægi lýsisinntöku. Börnum var gefið lýsi í skólanum hér áður fyrr. Foreldrar okkar eiga slíkar minningar, sem bjuggu til þekkingu og venjur. Það er engin tilviljun að markaðsherferð lýsis í dag undirstrikar að lýsi sé leynivopn þjóðarinnar. Í raun er það D-vítamínið í lýsi sem er leynivopn þjóðarinnar. Í dag er ábyrgð foreldra að tryggja börnum sínum D-vítamíngjafa, foreldrar sem búa ekki að þeirri þekkingu sem fyrri kynslóðir höfðu. Það er sértakt áhyggjuefni að leik- og grunnskólar landsins búa við það kröpp kjör að það þyki sparnaður að draga saman innkaup af lýsi eða öðrum D-vítamíngjafa.
D-vítamínbúskapur
Rannsókn á D-vítamínbúskap Íslendinga fór síðast fram árið 2004, niðurstöður voru að helmingur þátttakenda mældust með D-vítamínforða undir æskilegu kjörgildi. Rannsóknir manneldisráðs hafa sýnt að fiskneysla hefur dregist saman um þriðjung og að inntaka lýsis sem D-vítamíngjafa er verulega ábótavant í aldurshópum 18-80 ára. Þrátt fyrir að ætla mætti að vandinn væri meiri á norðlægum slóðum þá hefur breyttur lífstíll fólks um allan heim tengt inniveru, aukinni mengun og notkun sólarvarna aukið D-vítamínskort um allan heim. Í samtölum við fólk heyri ég að fólk er ringlað yfir inntökumagni, formi og misvísandi skilaboð frá ólíkum aðilum. Vísindamenn og læknasamfélagið er sammála um að kjörgildi í blóði eigi að vera á bilinu 50-150 nmól/L. Embætti landlæknis gefur út leiðbeiningar um ráðlagða dagskammta (RDS) D-vítamíns á bilinu 400-800 einingar, sem eiga við um þorra heilbrigðs fólks. Ég hef verið hugsi yfir ýmsum vanda sem Íslendingar glíma við í heilbrigðismálum og velti stundum fyrir mér hvort fólk sé að glíma við ógreindan D-vítamínskort og einkenni leiði ekki strax til réttrar greiningar. Stundum sé gengið að því vísu að fólk hafi þá þekkingu sem til þarf til að byggja upp D-vítamínbúskap sinn. Ef börn eða fullorðnir mælast í D-vítamínskorti eiga ráðlagðir dagskammtar einfaldlega ekki við. Þess vegna er ég hugsi yfir því að heyra af fólki hefur verið neitað um blóðrannsókn á D-vítamínbúskap sínum og vísað frá með ráðleggingu um að taka D-vítamín án þess að gera því kleift að fá vitneskju um stöðu á kjörgildi og geti því gripið til viðeigandi ráðstafana til að byggja hann upp og viðhalda (m.v. efri mörk RDS) í skamman tíma á meðan að kjörgildi er náð. Þá er hætt við að fólk taki meira mark á fræðslu frá markaðsöflum sem hafa hagsmuni af sölu fæðubótarefna. Ég gef fjölskyldu minni D-vítamíndropa GMP merkta (gæðastimpill framleiðslu) auk fiskiolíu; Þorskalýsi, Krill olíu eða frá Dropa á Bolungarvík.
Nýjar uppgötvanir um hlutverk
Beinvirkni sjúkdómar eru aðeins toppurinn á ísjakanum yfir afleiðingar D-vítamínskorts. Á síðustu árum hafa nýjar uppgötvanir leitt í ljós viðtaka með fjölbreytt hlutverk í vefjum og frumum líkamans sem eru undirstaða sterks ónæmiskerfis, beinheilsu og góðrar heilsu almennt. Þessar uppgötvanir eru óplægður akur vísindamanna og eiga eftir í framtíðinni að hjálpa okkur við að skilja enn betur mikilvægi D-vítamíns í líkamanum.
Stiklað á stóru um á niðurstöðum eigin rannsókna um D-vítamín, þekkingu og hegðun
Þátttakendur í rannsókninni tengd MSc lokaverkefni í markaðsfræðum, voru 451 talsins, kennarar í grunn- og menntaskólum. Meginniðurstaða var að vitundarvakningar er þörf á mikilvægi inntöku D-vítamíngjafa auk fræðslu á tengdum áhrifavöldum. Flestir búa yfir þeirri þekkingu að D-vítamínframleiðsla byggir á UVB sólargeislum, helmingur þátttakenda vissi ekki hversu langan tíma þarf til að ná dagskammti D-vítamíns gegnum sólargeisla og misskilningur um hvaða árstíð eða tíma dagsins hér á landi það væri mögulegt. Um 40% töldu að D-vítamín væri í Hákarlalýsi sem er rangt. Hluti þátttakenda töldu D-vítamín vera til staðar í grænmeti og ávöxtum sem er líka rangt, að sveppum undanskyldum. Flestir gerðu sér grein fyrir því að feitt fiskmeti og þorskalýsi væru góðir D-vítamíngjafar en þátttakendur borða helst ýsu eða þorsk sem eru magrar fisktegundir. Alls 35% þátttakenda taka ekki inn D-vítamín fæðubótarefni í neinu formi, 38% taka þorskalýsi inn daglega. Þekking þátttakenda kom að mestu leiti frá fjölmiðlum eða 45%, aðeins 12,8% höfðu þekkingu frá heimilislækni og 5,8% frá sérfræðilæknum og 16,2% frá kennurum.
Rannsóknin er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en sambærilegar rannsóknir frá Bretlandi, Ástralíu og Kína sýna frammá að fræðsla þurfi að einkennast meira af upplýsingum um áhrifavalda; húðlit, magn sólskins, tími dags, árstíð, breiddargráðu og næringu. Niðurstöður eiga það sannmerkt að fjölmiðlar spila mikilvægt hlutverk í lýðheilsu og mögulegu hlutverki í að breyta hegðun fólks. Þannig gætu heilbrigðisyfirvöld nýtt sér þann vettvang betur í því skyni að koma af stað vitundarvakningu meðal íslensku þjóðarinnar um mikilvægi inntöku D-vítamíngjafa á breiddargráðu 64°N.
Innleiða D-vítamíngjafa í skólum
Ég tel að við þyrftum að innleiða aftur lýsisgjöf eða D-vítamíngjafa í leik- og grunnskólum. Útbúa myndrænt fræðsluefni á mannamáli sem skýrir áhrifavalda D-vítamíns og hvernig lega Íslands gerir okkur einstök. Vitundarvakning þyrfti að vera sameignlegt átak í mennta- og heilbrigðiskerfinu með því markmiði að útrýma D-vítamínskorti og þekkingarleysi þar um. Stjórnvöld verða meðvitað að leggja meiri áherslu á forvarnir, veita aukið fjármagn til Embættis landlæknis og Heilsugæslunnar með forvarnir í huga. Stjórnvöld þyrftu að taka meðvitaða ákvörðun um að bera ábyrgð á þeim aðstæðum sem lega landsins setur okkur, með rannsóknum og eftirliti á D-vítamínbúskap þjóðarinnar, innleiða D-vítamíngjafa í menntakerfið og efla fræðslu enn frekar. Michael Holick einn helsti sérfræðingur á þessu sviði telur að ef D-vítamínbúskapur fólks yrði bættur á heimsvísu myndi það hafa dramatísk áhrif á lýðheilsu, og draga úr heilbrigðiskostnaði.
Höfundur: Anna Þóra Ísfold
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. janúar 2017.