Mjaðmabrot eru mikill heilbrigðisvandi á Íslandi eins og öðrum löndum. Tíðni mjaðmabrota er hæst á norðurlöndum og eru aldraðar konur í mestri áhættu að brotna. Mjaðmabrot eða brot á lærleggshálsi eiga sér oftast stað við lítinn áverka eins og við byltu úr standandi stöðu.
Svo lítill áverki veldur broti vegna beinþynningar. Beinþynning er sjúkdómur sem leggst fyrst of fremst á fullorðna einstaklinga. Konur lenda þó fyrr í vandræðum vegna beinþynningar vegna þess beintaps sem á sér stað eftir breytingaraldur en það gerist vegna minnkaðs magns hormónsins estrogens í blóði. Beinþynning orsakast af fleiri þáttum eins og erfðum og lífsstíl og má þá sérstaklega nefna hreyfingu, kalk og D-vítamín inntöku.
Ætla má að árið 2000 hafi 268 manns mjaðmabrotnað á Íslandi. Kostnaður vegna þessara brota er gífurlegur. Metið hefur verið að kostnaður við hvert mjaðmabrot sé um 1,5 milljónir kr. Einstaklingur sem brotnar leggst inn á sjúkrahús, fer í aðgerð, annað hvort er brotið neglt eða settur hálfur gerviliður. Eftir aðgerð hefst endurhæfing sem getur tekið allt frá nokkrum dögum til nokkurra mánaða. Margir ná aldrei fyrri heilsu og flytjast af sjúkrahúsi á hjúkrunarheimili. Aðrir fara aftur heim en um 60% búa við skerta göngugetu og þurfa því gönguhjálpartæki. Áætlað hefur verið að um 20% þeirra sem mjaðmabrotna látist á árinu eftir brotið.
Ýmislegt má gera til að koma í veg fyrir brot, sérstaklega má nefna mikilvægi góðrar kalk og D-vítamín töku, en D-vítamín skortur er algengur meðal aldraðra sem ekki taka lýsi eða geta lítið sem ekkert dvalið utandyra. Almennt er talið að kalkneysla sé of lítil og er mælt með auka hana. Rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum sýndi að ef konur og karlar 65 ára og eldri tóku inn 500 mg af kalki á dag og 800 a.e. af D-vítamíni (sem er meira en í flestum vítamín töflum á markaðinum) minnkuðu beinbrot á næstu 3 árum. Hreyfing sérstaklega sú sem veldur álagi á lærleggsháls eins og ganga, hopp eða hlaup styrkja beinið í lærleggshálsi og minnka því líkur á brotum. Eins eru beinstyrkjandi lyf á markaðinum sem fækka mjaðmabrotum.
Seint á síðasta ári birtist grein í virtu tímariti læknavísindanna sem fjallaði um árangur þess að nota sérstakar buxur gegn mjaðmabrotum. Í þessum buxum eru plast skeljar sem leggjast yfir utanverða mjöðmina sitt hvoru meginn. Skelin dreifir kraftinum sem lendir á lærleggshálsinum við byltu og minnkar þar með líkur á að hann brotni. Rannsóknin tók til 1.801 aldrðaðra einstaklinga í Finnlandi. Mjaðmabrotum fækkaði um 60% meðal þess hóps sem fengu buxurnar miðað við samanburðarhópinn. Þeir sem voru duglegir að nota buxurnar voru jafnvel enn öruggari gagnvart mjaðmabrotum. Þessi árangur telst mjög góður og stendur fyllilega samanburð við lyfjameðferð gegn mjaðmabrotum og öðrum algengum sjúkdómum. Þessi rannsókn tekur af allann vafa í huga höfundar að skeljabuxurnar eru áhrifarík leið til að fækka mjaðmabrotum meðal þeirra sem eru í áhættu að detta og brotna og mæli ég því með að bæði almenningur og fagfólk heilbrigðistétta leggist á eitt að auka notkun skeljabuxna til varnar mjaðmabrotum.
Notkun þeirra getur stuðlað bættri heilsu og vellíðan aldraðra. Ég skora á stjórnvöld að greiða niður kostnað vegna þeirra eins og annarra hjálpartækja því það er ekki bara einstaklingurinn sem hagnast á notkun þeirra heldur allur almenningur vegna þess gífurlega kostnaðs sem fylgir hverju broti.
Buxurnar eru seldar í Remedíu og kosta 5,300 kr stykkið.
Helga Hansdóttir, s. yfirlæknir, Landspítala Háskólasjúkrahúsi, Landakoti