Laugardaginn 20. október er Alþjóða Beinverndardagurinn. Þennan dag minna Beinverndarsamtök um allan heim á sig með ýmsum hætti. Þema beinverndardagsins er ” Fjárfestu í beinum” með áherslu á fræðslu. Beinvernd á Íslandi gengst fyrir ratleik í grunnskólum landsins dagana 22. til 26 október, en leikurinn er byggður á spurningum um bein og tengt efni. Beinvernd samdi kafla um beinin í lífleikninámsefni grunnskóla í 4., 6. og 9. bekk sem heitir :”Ég er það sem ég vel “. Auk þess er Beinvernd virkur þátttakandi í alþjóðasamtökum. Fræðslubæklingar Beinverndar: “Hollusta styrkir bein” og “Líkamshreyfing og beinþynning” fást á heilsugæslustöðvum og apótekum. Nánari upplýsingar um Beinvernd er að finna á heimasíðu www. beinvernd.net
Hinn þögli vágestur
Innan við 10 ár eru frá því að beinþynning var skilgreind sem sjúkdómur og farið var að huga alvarlega að forvörnum, en það kallast beinþynning þegar kalkið í beinunum minnkar svo mikið að þau þola ekki lengur eðlilegt álag. Sjúkdómurinn hefur stundum verið kallaður “Hinn þögli vágestur” þar sem hann læðist að fórnarlömbunum og getur valdið beinbrotum af litlu eða engu tilefni.
Við eðlilegar aðstæður helst beinmassinn í jafnvægi hjá konum fram að tíðahvörfum en heldur lengur hjá körlum eða fram undir sjötugt. Við tíðahvörf verða miklar hormónabreytingar hjá konum, sem geta leitt til óeðlilegrar beinþynningar, sé ekki að gætt. Skortur á estrógen hormóni er nú talin ein helsta orsök beinþynningar og því taka margar konur nú inn estrogen hormón til að draga úr áhrifum breytingaskeiðsins, en fyrir nokkrum árum var ekkert hugsað um beinþynningu í því sambandi. Eftir sjötugt eru karlar og konur í sömu hættu á fá beinþynningu og fjölgar fórnarlömbum beinþynningar ört með hækkandi aldri.
Forvarnir
Ýmislegt má gera til að forðast beinþynningu og er hæfileg hreyfing efst á blaði svo sem gönguferðir og léttar æfingar með lóðum. Næringin skiptir miklu máli og hafa skal í huga að beinin eru kalkforðabúr líkamans. Þess vegna er nauðsynlegt að borða hollan og kalkríkan mat svo sem mjólk, mjólkurafurðir, grænmeti, baunir, sardínur o.fl. Þótt líkaminn myndi svolítið D vítamín í sólarljósi er okkur Íslendingum líka hollt að taka inn u.þ.b. 1 tsk af lýsi á dag til að binda kalkið. Beinþynning er tengd erfðum og er því ástæða til þess að hvetja þá sem vita af beinþynningu í fjölskyldunni að vera sérstaklega á verði. Félagið Beinvernd á Suðurlandi hefur lagt sitt af mörkum til forvarna með því að halda fræðslufundi þar sem sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum sem tengjast beinþynningu hafa flutt erindi og setið fyrir svörum. Næsti fundur Beinverndar á Suðurlandi verður haldinn á Selfossi í nóvember. Björn Guðbjörnsson, gigtarlæknir og nýkjörinn formaður Beinvernar á Íslandi flytur þar erindi um beinþynningu og gigt.
Beinþéttnimælingar
Beinþéttnimæling er eina leiðin til að finna “Hinn þögla vágest” áður en beinbrot á sér stað. Nú geta allar konur sem komnar eru yfir fertugt fengið slíka mælingu sem er fljótleg og sársaukalaus. Árnes apótek hefur staðið fyrir mælingum á Selfossi í samvinnu við Beinvernd og hefur mikil ásókn verið í þessar mælingar enda eru sunnlenskar konur vel vakandi fyrir gildi forvarna og reglubundins eftirlits.
f.h. Beinverndar á Suðurlandi
Anna Pálsdóttir, formaður.