Alþjóðlegur beinverndardagur er 20. oktober næstkomandi og ber hann yfirskriftina “fjárfestum í beinum”.
Af því tilefni vill stjórn Beinverdar minna á nokkrar staðreyndir er varða beinþynningu. Með hæfilegri hreyfingu, hollu mataræði og góðum lífsvenjum má í æsku stuðla að góðri inneign í beinabankanum, sem má taka út úr síðar á æfinni. Nægileg hreyfing barna og unglinga er mikilvæg ásamt með kalk og D-vítamín ríkri fæðu.
Beinþynning er vaxandi vandi með hækkandi aldri og er aukningin meiri en sem nemur fjölgun aldraðra þannig að ekki verður ellinni einni kennt um. Hreyfingarleysi aldraðra veikir vöðva og skerðir þol þannig að byltur og brot hljótast af. Samföll á hryggjarliðum og á mjaðmarliðum eru bæði algeng og alvarleg. Það er mikilsvert að fræða fólk um gildi hreyfingar til viðhalds beinum, vöðvum og þreki.
Forvarnir gegn beinþynningu er fólgin í ráðgjöf um hæfilega hreyfingu og kalk og D-vítamíninntöku. Þannig má almennt mæla með styttri sjónvarps- og tölvusetu barna , að konur við tíðahvörf stundi áreynsluþjálfun að minnsta kosti 2 tíma alls á viku. Gott er að blanda saman þolþjálfun og göngu þar sem gengið er upímóti, til dæmis í stiga. Sumar konur hafa gott af kvenhormóngjöf. Öldruðum nægir hinsvegar að ganga daglega um 20-30 mín. til að viðhalda beinmagni í mjöðmum og þeir skyldu varast langar setur. Aldraðir þurfa auk þess að innbyrða 1200 mg af kalki á dag og taka með því að minnst 600 alþjóðlegar einingar af D-vítamíni.
Þórunn Björnsdóttir, sjúkraþjálfari