Nú fer vetrarstarf Beinverndar að hefjast af fullum krafti. Alþjóðlegi beinverndardagurinn 20. október hefur verið hápunktur starfsins og í ár verður engin undatekning þar þá. Að þessu sinni verður lögð áhersla á fæðuval þ.e. að bera fram fjölbreyttan og hollan mat með næringarefnum sem styrkja og viðhalda sterkum beinum. Við þurfum kalk, D-vítamín og prótein fyrir beinin og mun Beinvernd vera með upplýsingar og fræðsluefni þar að lútandi.
Alþjóðleg ráðstefna beinverndarfélaga innan IOF verður haldin í Aþenu 11.-13. september n.k. Þessi ráðstefna er haldin annað hvert ár og er það góður vettvangur að hittast og bera saman bækur sínar um starfið og fræðast um það sem er að gerast hjá öðrum félaögum og um nýjar rannsóknir á þessu sviði. Beinvernd mun senda tvo fulltrúa á ráðstefnuna.
Beinvernd mun einnig leggja áherslu á fræðslu fyrir eldri borgara um allt sem lýtur að beinheilsu og hvernig megi draga úr hættunni á byltum og beinbrotum. Minnum á að hér á heimasíðunni www.beinvernd.net er að finna mikinn fróðleik um beinþynningu , forvarnir, greiningu og meðferð. Einnig er fræðandi efni og ýmist skemmtilegt á facebook síðu félagsins www.facebook.com/beinvernd