4
www.beinvernd.is
Ásdís
Hjálmsdóttir
spjótkastari
Hvar og hvenær ertu fædd?
Ég er fædd 28. október 1985 í Reykjavík.
Hvar ólst þú upp og í hvaða skólum hefur þú verið?
Ég ólst upp í Fossvoginum og var í Breiðagerðisskóla og
Réttarholtsskóla sem krakki. Þaðan lá leiðin í MH og svo loks
í Háskóla Íslands.
Hvenær byrjaðir þú að æfa íþróttir og varð spjótkastið strax
aðal íþróttin þín?
Ég byrjaði fyrst að æfa badminton þegar ég var 10 ára og
prófaði svo margar aðrar íþróttir með, þangað til ég fann
frjálsar þegar ég var 12 ára. Lengi vel æfði ég badminton á
veturna og frjálsar á sumrin en skipti svo alfarið yfir í frjálsar
þegar ég byrjaði í menntaskóla árið 2001. Það var í raun ekki
fyrr en svona 2003 eða 2004 sem spjótkastið varð aðalgreinin
mín.
Hvað æfir þú mikið og hvernig var undirbúningi fyrir
Ólympíuleikana háttað?
Æfingamagnið er mjög mismikið eftir tímabilum en þegar
mest er fer það upp í 8-12 sinnum í viku í 2-4 tíma í senn.
Fyrir Ólympíuleikana æfði ég að sjálfsögðu mjög mikið og
þurfti að fara í nudd og til kírópraktors í hverri viku auk þess
sem íþróttasálfræðingar og næringarfræðingur hjálpuðu mér
mjög mikið. Það er í mörg horn að líta þegar maður undirbýr
sig fyrir svona mót.
Er það taugatrekkjandi að þurfa að ná ólympíulágmörkum til
að komast inn á leikana?
Það getur að sjálfsögðu verið það og þá sérstaklega þegar
maður er orðinn tæpur á tíma en það er bara nauðsynlegur
hluti af þessu.
Hversu miklu máli skiptir mataræði fyrir afreksíþróttafólk?
Það skiptir mjög miklu máli. Það keyrir enginn bílinn án
bensíns og við setjum ekki dísel á bensínbíl. Við virkum að
vissu leyti eins þar sem maturinn sem við borðum hefur svo
mikil áhrif á hvernig okkur líður. Það þarf líka góða orku til að
sleppa meiðslalaus í gegnum erfið æfingatímabil.
Hvernig hagar þú þínu mataræði?
Ég hugsa mikið um hvað ég læt ofan í mig og reyni að borða
eins hreina fæðu og ég get.
Hefur þú alltaf gætt þess vel að borða hollan og góðan mat,
líka á unglingsárum?
Já alltaf að einhverju leyti en kannski ekki eins mikið og ég
geri í dag. Maður lærir alltaf af reynslunni og því miður vissi
ég ekki þá það sem ég veit í dag.
Hverjar eru fyrirmyndir þínar?
Jan Zelezny heimsmethafi í spjótkasti karla, Ólafur
Stefánsson og Hjálmur Sigurðsson faðir minn.
Hverjir eru helstu áhrifavaldar þínir?
Pabbi var án nokkurs vafa helsti áhrifavaldur minn.
Stuðningur hlýtur að skipta miklu máli, hvaðan færð þú
stuðning þinn?
Stuðningur skiptir gífurlegu máli og það getur enginn gert
þetta einn og óstuddur. Ég er svo heppin að eiga mikið af
góðu fólki að og fá góðan stuðning frá fjölskyldu, vinum,
félaginu mínu, fagteyminu mínu, öðrum frjálsíþróttamönnum,
styrktaraðilum og svo mætti lengi telja.
Lífið eftir Ólympíuleikana, hvað eru helst að fást við núna?
Nú er ég komin í frí frá skipulögðum æfingum svo ég
get verið að gera það sem mig langar til. Ég er aðeins að
vinna og svo hefur verið nóg að gera í allskonar verkefnum
og útbreiðslustarfi á íþróttinni tengdu árangrinum á
Ólympíuleikunum.
Framtíðarplön?
Ég held ótrauð áfram að æfa og stefni enn hærra í minni
grein. Annað mun svo bara taka við þegar ferlinum lýkur.
Hefur þú þurft að færa miklar fórnir til að ná svona langt í
spjótkasti?
Það má kannski segja það en þannig lít ég ekki á það.
Ég hef einfaldlega alltaf valið að gera það sem mér þykir
skemmtilegast og skiptir mig mestu máli á hverri stundu. Ég
hef bara takmarkaðan tíma fyrir íþróttaferilinn en eftir það hef
ég nægan tíma fyrir allt annað.
Ætlar þú að halda áfram að keppa? Stefnir þú kannski á
næstu Ólympíuleika?
Ég er rétt að byrja, spjótkastarar toppa yfirleitt eftir þrítugt
og ég er rétt að verða 27 ára svo ég á nóg eftir. Ég mun því að
öllum líkindum verða á toppi ferilsins í Brasilíu eftir 4 ár.
Hver eru skilaboð þín til ungu kynslóðarinnar, bæði þeirra
sem stefna á Ólympíuleika og hinna?
Finnið ykkur eitthvað sem þið hafið gaman af og brennandi
áhuga fyrir. Þá verður vinnan sem þið þurfið að leggja á ykkur
auðveldari. Munið bara að þegar allt kemur til alls þá snýst
þetta fyrst og fremst um hamingju ykkar.