02
www.beinvernd.is
Ágæti lesandi
Fréttabréf Beinverndar kemur nú út í þrettánda
sinn en fyrsta fréttabréf samtakanna kom út í
október árið 2003. Eitt af markmiðum Beinverndar
er að vekja athygli almennings og stjórnvalda á
beinþynningu sem heilsufarsvandamáli. Annað
markmið samtakanna er að standa að fræðslu
meðal almennings og heilbrigðisstétta á þeirri
þekkingu sem á hverjum tíma er fyrir hendi um
beinþynningu og varnir gegn henni. Árleg útgáfa
fréttabréfsins er liður í að vinna að þessum
markmiðum.
Góð beinheilsa er ekki sjálfgefin. Góð beinheilsa
fellur ekki af himnum ofan. Vissulega skipta erfðir
miklu máli varðandi beinþéttni. Hins vegar hefur
þú, lesandi góður, sterk vopn í hendi þér gegn
beinþynningu, sem eru gott mataræði og hreyfing.
Með þessum vopnum má viðhalda vöðvastyrk og
beinþéttni og minnka líkur á byltum og brotum.
Gættu sérstaklega að því að fá nægilegt kalk og
D-vítamín og hreyfðu þig daglega. Allt skiptir
máli. Taktu stigann en ekki lyftuna. Gakktu út í
búð í stað þess að keyra. Ef þú ert foreldri ættir
þú líka að huga að beinheilsu barna þinna. Ráðin
eru þau sömu: kalk, D-vítamín og hreyfing. Ef þú
átt aldraða foreldra gætu þau þurft aðstoð við að
viðhalda beinheilsu sinni. Enn eru ráðin þau sömu:
kalk, D-vítamín og hreyfing. Gerum það sem í
okkar valdi stendur til að styrkja beinin á öllum
æviskeiðum. Þekking er besta vopnið. Vilji er allt
sem þarf.
Lifið heil.
Eyrún Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur
ritstjórapistill
Fréttiraf starfsemi félagsins
Landssamtökin Beinvernd voru stofnuð árið 1997 að frumkvæði
Ólafs Ólafssonar þáverandi landlæknis. Félagið gerði tveggja ára
samstarfssamning við Fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins árið 1999
og hefur hann verið endurnýjaður fimm sinnum. Beinvernd hefur á
undanförnum árum gefið út fræðsluefni auk fréttabréfa. Til viðbótar við
útgefið efni á prenti heldur félagið úti heimasíðu, www.beinvernd.is,
og Facebook-síðu, www.facebook.com/beinvernd. Þess má geta að
flest útgefið efni má finna á heimasíðunni.
Verkefni Beinverndar snúa fyrst og fremst að forvörnum gegn
beinþynningu, vitundarvakningu og fræðslu. Starfsmaður
Beinverndar hefur farið víða á þessu ári og haldið fyrirlestra um
beinvernd. Vinnustaðir hafa verið heimsóttir, félagasamtök og skólar.
Félagið styður forvarnarstarf á landsbyggðinni m.a. með því að
lána heilsugæslustöðvum beinþéttnimæli. Beinþéttnimælirinn er
ómskoðunartæki sem mælir beinþéttni í hælbeini, en slík mæling
gefur vísbendingu um ástand beinanna og hvort ástæða sé til að
láta kanna þau nánar eður ei. Auk þess hefur félagið tekið þátt
í samstarfsverkefnum s.s. heilsusýningum. Sérfræðingar innan
Beinverndar hafa og verið ötulir að fræða heilbrigðisstarfsfólk um
beinþynningu, greiningu, meðferð og forvarnir auk þess að uppfræða
stjórnvöld um kostnað þjóðfélagsins af hennar völdum.
Beinvernd er aðili að alþjóðlegu beinverndarsamtökunum IOF
(International Osteoporosis Foundation) og tekur virkan þátt í
alþjóðlegu beinverndarstarfi. Þess má geta að Beinvernd hefur tvívegis
fengið verðlaun frá IOF fyrir framsækið forvarnarstarf, fyrst árið 2002
og síðar árið 2005. IOF heldur alþjóðlega ráðstefnu beinverndarfélaga
annað hvert ár og hafa fulltrúar frá Beinvernd sótt ráðstefnurnar og
lagt sitt af mörkum í vinnuhópum þar.
Aðalstyrktaraðili Beinverndar er sem fyrr segir Fræðslunefnd
mjólkuriðnaðarins en á þessu ári fékk Beinvernd einnig styrk frá
Actavis til ákveðinna verkefna.
Beinvernd
Pósthólf 161, 270 Mosfellsbær
Sími: 897 3119
www.beinvernd.is
Viltu gerast félagi?
Þeir sem hafa áhuga á að gerast félagar í Beinvernd geta haft
samband við Halldóru Björnsdóttur, framkvæmdastjóra félagsins,
í síma eða sent tölvupóst. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Guðni Ágústsson formaður Fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins
og dr. Björn Guðbjörnsson formaður Beinverndar handsala nýjan
samstarfssaming til næstu tveggja ára.