04
www.beinvernd.is
Heimsmeistari með sterkbein!
Hvar og hvenær ertu fædd?
Ég fæddist í Reykjavík þann 18. september árið 1989.
Hvar sleistu barnsskónum?
Fyrstu árin mín var ég í Vík í Mýrdal. Þegar ég var 6 ára
flutti ég til Noregs og bjó þar í eitt ár. Síðan þá hef ég verið í
Kópavoginum.
Hvenær byrjaðir þú í íþróttum og hvaða íþróttir hefur þú
stundað?
Ég byrjaði í fimleikum hjá Gerplu eftir að við fluttum heim
frá Noregi, þá aðallega til að vera með frænkum mínum
en á þeim tíma voru nokkrar þeirra í fimleikum. Ég festist
svo í fimleikunum og var það íþróttin mín þar til ég byrjaði
í Menntaskólanum í Reykjavík en þá var ég nýkomin í
landsliðshópinn. Ég var búin að vera aðeins í dansi með
síðasta árinu mínu í fimleikunum og tók inntökupróf í
Listdansskóla Íslands. Ég komst þangað inn en færði mig
fljótlega yfir í JSB þar sem ég fór á listdansbraut. Með
dansinum byrjaði ég í Boot Camp. Sautján ára byrjaði ég
síðan í stangarstökki með ÍR. Mér gekk mjög vel þar og
landaði nokkrum Íslandsmeistaratitlum. Ég var alltaf í Boot
Camp með hinum íþróttunum mínum og það var í gegnum
það sem ég endaði á að taka þátt í fyrsta CrossFit mótinu
mínu þegar ég var 19 ára gömul. Ég vann það mót og komst
í kjölfarið á heimsleika CrossFit sama ár. Síðan þá hef ég
verið gjörsamlega háð CrossFit og þegar ég þurfti að velja á
milli þess að halda áfram í stangarstökkinu eða flytja mig yfir
í CrossFittið var það mjög erfitt val. Núna sé ég hins vegar
að ég hef loksins fundið eitthvað sem á algerlega við mig og
sé ekki eftir ákvörðuninni. Núna æfi ég og kenni CrossFit í
CrossFit BC á Suðurlandsbrautinni.
Helstu áhrifavaldar, fyrirmyndir og stuðningur?
Það eru margir sem ég hef litið upp til í gegnum tíðina. Samt
hef ég aldrei haft einhvern einn ákveðinn sem ég vil líkjast.
Þeir sem ég hef alltaf litið upp til eru foreldrar mínir og fólk
sem vinnur hart að því að ná þeim markmiðum sem það hefur
sett sér. Það eru lífsins fyrirmyndir að mínu mati.
Varstu vakandi fyrir því að borða hollan og góðan mat á
aldrinum 12–15 ára?
Ég get ekki sagt að ég hafi verið á ströngu mataræði á þeim
tíma. Það var meira þannig að það var mikilvægara fyrir mig
að reyna að borða nóg með fimleikunum enda fór töluverð
orka í þær æfingar.
Hvað ertu helst að fást við núna?
Í augnablikinu er ég í Boston og að ferðast um heiminn fyrir
hönd Reebok í stórri auglýsinga- og kynningarherferð fyrir
samstarf Reebok og CrossFit. Þetta er fyrsta önnin sem ég
tek mér frí frá háskólanámi. En með þessu stofnaði ég mína
eigin stöð, CrossFit BC, í samstarfi við Elvar og eigendur Boot
Camp og erum við núna að vinna í að flytja í stærra og betra
húsnæði í Elliðaárdalnum í janúar 2012.
Hvernig gengur að sameina nám/atvinnu og að vera í
afrekshópi í íþróttum?
Það fer að sjálfsögðu meiri vinna í að skipuleggja vel þann
tíma sem ég hef fyrir hvert og eitt og að forgangsraða en mér
finnst það hafa gengið nokkuð vel hingað til. Ég er að vinna við
að byggja upp það sem ég hef mikinn áhuga á og ég hef alltaf
haft gaman af því að vera í skóla. Það sem að ég get sagt að
ég eigi erfiðast með að standa við er að mæta í tíma.
Annie Mist Þórisdóttir tryggði sér heimsmeistaratitil kvenna í CrossFit
á heimsleikunum í Los Angeles í Kaliforníu í júlí síðastliðnum. Skartar
hún því titlinum: The Fittest Woman on Earth. Annie Mist er auk þess
Evrópumeistari kvenna í greininni. Beinvernd kom að máli við Annie Mist.